26.02.1920
Efri deild: 12. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 129 í C-deild Alþingistíðinda. (1018)

7. mál, einkaleyfi

Halldór Steinsson:

Jeg vildi að eins taka í sama strenginn og háttv. 3. landsk. þm. (S. J.). Jeg tel ekki, að hv. deild hafi haft nægilegan tíma til að athuga brtt.

Það var ljót skyssa eða glapræði að taka til vissan dag, er slíta skyldi þingi. Og þar sem tíminn var tiltekinn svo stuttur, þá verður afleiðingin sú, að mörg mál verða að sitja á hakanum, eða þá að þau ná fram að ganga í flaustri.

Þetta mál er allstórt, og nefndin hefir athugað það vel, en gert svo miklar breytingar á því, að frv. er gerbreytt. Jeg er ekki undir það búinn að greiða atkv. með eða móti frv., enda skaðar það málið ekkert, þótt það dragist til næsta þings.

Jeg mæli því með því, að málið verði tekið út af dagskrá, þar sem það er mjög ólíklegt, að það komist í gegnum Nd.