19.02.1920
Neðri deild: 7. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 134 í C-deild Alþingistíðinda. (1027)

20. mál, skipun prestakalla Suðurdalaþing

Flm. (Bjarni Jónsson):

Jeg vænti þess, að hv. þm. hafi lesið þá ítarlegu greinargerð, sem fylgir þessu frv. frá Árna lækni Árnasyni. Jeg þarf engu við þá greinargerð að bæta, því Árni er kunnugri þessu máli en jeg, og get jeg ekki skýrt þar betur frá en hann gerir. Jeg sje heldur ekki ástæðu til að lesa upp brjefið, vona, að þm. hafi lesið það og þeir lesi, sem eiga það enn ógert.

Það mælir alt með því, að það, sem frv. fer fram á, fái að haldast óbreytt eins og verið hefir frá ómunatíð. En jeg vil benda á, að nauðsynlegt er, að málið fái framgang þegar á þessu þingi. Það getur vel verið, að Ólafur prófastur Ólafsson segi af sjer í vor, og verður þá sameiningin framkvæmd, ef þetta frv. er ekki orðið að lögum.

Jeg vil benda þeirri nefnd, sem um þetta mál fjallar, á það, að hvergi er hægt að fá nánari upplýsingar en hjá prófasti, sem nú býr hjer í bænum í vetur og hefir þjónað þessu brauði í mörg ár.

Jeg vænti þess, að hv. deild lofi frv. að ganga til allsherjarnefndar, sem nú hefir 2 svipuð mál til meðferðar.