19.02.1920
Neðri deild: 7. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 135 í C-deild Alþingistíðinda. (1030)

21. mál, skipun læknishéraða o. fl. Bakkahérað

Flm. (Björn Hallsson):

Við flutnm. þessa frv. höfðum komið fram með það áður en ákveðið var, að þingið skyldi vera eins stutt og unt væri. — En jeg býst ekki við, að þetta frv. þurfi að tefja þingið lengi. Það er gamall kunningi og hefir verið til umr. á 3 þingum. Á síðasta þingi komst það í gegnum þessa hv. deild, en dagaði uppi í hv. Ed. — Í greinargerð fyrir frv. er drepið á ástæðurnar, sem til þess liggja, og eru þær svo margteknar fram, að óþarfi virðist að rifja þær upp nú. En af því að hjer er mikið af nýjum hv. þm., sem ef til vill hafa ekki kynt sjer málið, þá ætla jeg að fara um það nokkrum orðum.

Það er farið fram á það, að Hróarstunguhjeraði verði skift í tvent, og verði Borgarfjörður sjerstakt læknishjerað, en hitt hjeraðið myndist af Hjeraðshreppum þess núverandi Hróarstunguhjeraðs.

Eins og nú er ástatt, verða Hjeraðsbúar Hróarstungulæknishjeraðs að sækja lækni ýmist að Brekku í Fljótsdal, ofan til Borgarfjarðar eða til Vopnafjarðar. Hver þessi leið, sem valin er í hvert sinn, er löng og erfið, og oft um seinan hægt að ná til læknis í bráðum tilfellum. Síðan bústaður læknisins var fluttur til Borgarfjarðar má svo heita, að Hjeraðshreppar þess hjeraðs sjeu læknislausir. Borgarfjarðarlæknirinn er mjög lítið sóttur af Hjeraði, sem stafar mest af því, hvað fjallvegurinn á milli er vondur yfirferðar. Hitt verður því oft úr, að menn brjótast til Vopnafj. eða upp í Brekku, en þeir læknar hafa að sjálfsögðu oft störfum að gegna í sínum hjeruðum, og því alls óvíst, að þeir geti farið, þegar búið er að brjótast þessar dýru ferðir. Allir geta því sjeð, að þetta ástand er óþolandi. Reynslan er búin að sýna það, að Borgfirðingar og Hjeraðsbúar geta aldrei sameinast hjeðan af um einn lækni, og virðist þá eina ráðið að skifta þessu læknishjeraði í tvö hjeruð.

Því hefir verið haldið fram, að með því að skifta hjeruðunum yrðu hjeruðin nýju rýr og yrði erfitt að fá lækna í þau. Mjer finst nokkur bót ráðin á þessu með launalögunum nýju, þar sem hjeruðin eru flokkuð eftir gæðum og erfiðleikum.

Það má líka á það benda, að þjóðin vill hafa lækna. Hún vill vinna til, að borga þeim vel, af því þeirra er brýn þörf. Og jeg veit ekki, hvar þörf er, ef ekki þarna.

Jeg vænti þess, að þessi hv. deild taki málinu eins vel og hún gerði síðast. — Það er svo þaulrætt, að óþarfi er að skipa því til nefndar.