19.02.1920
Neðri deild: 7. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 141 í C-deild Alþingistíðinda. (1036)

21. mál, skipun læknishéraða o. fl. Bakkahérað

Flm. (Björn Hallsson):

Hv. samþm. minn (Þorst. J.) hefir að mestu tekið af mjer ómakið með því að svara hv. þm. S.-Þ. (P. J.). Sá hv. þm. (P. J.) sagði, að það hefði komið fram hjer á Alþingi, að þjóðin vildi ekki sjerstaklega fjölga læknum, en jeg verð að mótmæla því, að það sje ekki þjóðarvilji að fjölga læknum sjerstaklega fram yfir aðra embættismenn, og jeg veit, að í mínu kjördæmi er það talið sjerstaklega nauðsynlegt að hafa lækna eftir þörfum, þótt aðrir embættismenn sjeu hlutfallslega ekki eins margir, svo að þetta er ekki ljett, í það minsta þar sem jeg þekki til.

Í því sambandi get jeg bent á það, að í mínu kjördæmi er bæði erfitt samsteypuprestakall og erfitt læknishjerað, og leggja hjeraðsbúar miklu meiri áherslu á skiftingu læknishjeraðsins en prestakallsins. Þetta er líka eðlilegt, þar sem líf margra manna getur verið undir lækni komið, en það er ekki hægt að segja um prestsþjónustu.

Jeg verð að taka undir það með hv. samþm. mínum (Þorst. J.), að það væri undarlegt, ef þetta mál gæti ekki gengið fram nema því að eins, að svo og svo mörg önnur mál, því skyld, nái fram að ganga, heldur virðist mjer þvert á móti, að önnur hliðstæð mál ættu einmitt frekar að ná samþ. hv. deildar síðar, ef þetta er áður samþ., svo að jeg sje enga þörf á að vísa málinu til nefndar.