19.02.1920
Neðri deild: 7. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 142 í C-deild Alþingistíðinda. (1037)

21. mál, skipun læknishéraða o. fl. Bakkahérað

Eiríkur Einarsson:

Það er eingöngu til að minna á það, að Árnesingar voru einir þeirra, sem á síðasta þingi sóttu í það horf, að fá læknum fjölgað, og vildi jeg, úr því að minst var á þetta mál, þá með tilliti til þess, að þetta væri aukaþing, og ætti að verða mjög stutt, benda á, að rjettara væri að láta þetta frv., sem önnur slík, bíða næsta reglulegs þings. En jeg verð að segja fyrir mig, að úr því að þetta frv. er fram komið frá hv. þm. N.-M. (B. H. og Þorst. J.), þá mun jeg ekki leggjast á móti því, að það nái fram að ganga, ef tíminn leyfir, og vona jeg, ef hv. Alþingi tekur vel þessu frv., að önnur frv., því skyld, nái þá einnig framgangi á næsta þingi. En jeg verð að andmæla því, að nú verði rutt inn á þetta þing mörgum frv., og það er einungis af þeirri ástæðu, að við Árnesingarnir berum eigi fram að þessu sinni samskonar frv., en síst vegna þess, að þörf Árnesinga til læknafjölgunar sje ekki eins brýn og annara, er hafa sömu óskir fram að bera.

Hefir sýslunefnd Árnesinga skorað á okkur, þm. kjördæmisins, að sjá um, að læknum verði fjölgað í sýslunni, og má hv. þingdeild geta nærri, að Árnesingar óska þessa ekki að ástæðulausu, og ætti í því sambandi að nægja að benda á, hver fólksfjöldi er þar í hjeruðum, og hvernig stórárnar þar eystra gera einatt erfitt að vitja læknis. En á þetta reynir venjulega mest, þegar lífið liggur við.