23.02.1920
Neðri deild: 10. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 152 í C-deild Alþingistíðinda. (1058)

36. mál, hlunnindi í nýjum banka í Reykjavík

Bjarni Jónsson:

Jeg ætlaði mjer ekki að halda langa ræðu um þetta málefni, en jeg verð þó að segja, að mjer finst í allmikið ráðist. Ef hjer væru einhverjir þeir menn, sem óska að setja upp banka hjer, þykir mjer nær liggja að gefa banka landsins þau rjettindi, því að vel má, ef það þætti betur við eiga, breyta honum í hlutabanka. Jeg vildi helst víkja þeirri spurningu til hinnar nýju stjórnar, en jeg sje því miður ekki hinn væntanlega atvinnumálaráðherra hjer inni, — hvort henni mundi það ljúft, að þetta væntanlega fjelag geti þegar fengið þau hin sömu rjettindi og landsins eigin bankastofnun hefir. En hins vegar mætti það kann ske þykja of mikið af mjer, manni með jafnlitla fjármálaþekkingu, að vilja ekki auka veltufje manna hjer í landinu, því að sjálfsagt á ekki að taka fje úr sparisjóði Landsbankans til að stofna með þennan nýja banka eða afla honum rekstrarfjár með þeim hætti, eða hvað?

Jeg ætla að flytja frv. um heimild til að gera Landsbankann að hlutabanka, og er það að eins ókomið. Það er ekkert sjerstakt, að einstaklingar eigi hluti í þjóðbönkum erlendis. Bankinn er undir stjórn ríkisins, og menn fengju þar sömu hlunnindi fyrir fje sitt og þeir myndu fá í hinum nýja banka. Þar að auki yrði það landsmönnum eins gagnlegt eins og að setja nýjan banka á stofn. Jeg þori að segja, að það hefði verið hyggilegra áður að stækka Landsbankann en að fá útlendinga til að setja slíkan seðlabanka sem Íslandsbanka á stofn. Og ef það hefði verið hyggilegra áður, þá er það hyggilegra nú, að styrkja stofnun, sem landið á sjálft, en að styrkja aðra til að keppa við stofnun landsins. Jeg þykist gera öllum rjett, þegar jeg kem fram með þessa till. mína. Ætla svo ekki að fjölyrða meira.