23.02.1920
Neðri deild: 10. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 153 í C-deild Alþingistíðinda. (1059)

36. mál, hlunnindi í nýjum banka í Reykjavík

Jakob Möller:

Háttv. þm. Dala. (B. J.) hefir að nokkru leyti tekið af mjer ómakið, því jeg ætlaði að koma fram með líka till., en jeg hefði þó mælt fram með henni nokkuð á annan veg en hann. Það er mikið talað um það, hvernig eigi að auka starfsfje Landsbankans.

Hann hefir sama og ekkert rekstrarfje, og ef hann með tímanum á að taka að sjer seðlaútgáfuna, þá verður að afla honum fjár á einhvern hátt. Best hygg jeg að mundi vera að afla fjárins innanlands að sem mestu leyti, og þá helst á þann hátt, að gera Landsbankann að hlutabanka að nokkru leyti. En ef þessi nýi banki yrði settur á stofn, þá virðist sú leið lokuð. Nýi bankinn verður frekar gróðafyrirtæki, og einstakir menn því fúsari að leggja fje sitt í hann. — Jeg er samdóma hv. 1 þm. Reykv. (Sv. B.) um, að það væri út af fyrir sig æskilegt að fá 3. bankann. Mjer finst hafa borið tilfinnanlega lítið á samkepni milli bankanna. Hvers vegna hafa útlánsvextir hækkað án þess að innlánsvextir hafi hækkað? — Bankarnir drýgja tekjurnar á ýmsan hátt, enda er gróðinn afskaplegur. Mjer finst ekki ósanngjarnt, að þeir, sem leggja fje í bankana, njóti gróða þeirra betur en þeir gera. — En það, sem þó mestu varðar, er að finna einhverja leið til að efla Landsbankann. Jeg geri ekki ráð fyrir, að þetta frv. eða frv. hv. þm. Dala. (B. J.) nái fram að ganga á þessu þingi. En málið má ekki lognast þannig út af, og þetta þing verður að gera einhverjar ráðstafanir til þess að halda því vakandi. Nú er hugsanlegt, að hinn fyrirhugaði nýi banki yrði stofnaður, þó að hann fái engin hlunnindi að þessu sinni, og verður þá að hafa gætur á því, hvort þeirri leið til að efla Landsbankann, að gera hann að hlutabanka, er ekki þar með lokað. En sú leið væri þó enn opin, að sameina þennan fyrirhugaða nýja banka og Landsbankann síðar, ef samkomulag gæti tekist um það. Gæti það þá verið æskilegt, að bankinn yrði stofnaður sem fyrst, en nefndin, sem mál þetta fær til meðferðar, yrði þá að leita máls á því við forgöngumenn fyrirtækisins.

Eins og bent hefir verið á, eru það margir aðalfjáraflamenn landsins, sem standa fyrir hinum nýja banka og eru það að vísu meðmæli, en á hinn bóginn augljóst, að rekstrarfje bankans verður þó aðallega tekið út úr hinum bönkunum, sem fyrir eru. Fjármagn bankanna mundi því varla aukast mikið við stofnun nýja bankans, og landinu yrði ekki mikill bagi að því, þó að stofnunar hans yrði að bíða eitt ár. Og vil jeg að lokum brýna það fyrir háttv. nefnd, að hafa Landsbankann í huga, þegar hún fer að ræða þetta mál.