23.02.1920
Neðri deild: 10. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 156 í C-deild Alþingistíðinda. (1061)

36. mál, hlunnindi í nýjum banka í Reykjavík

Bjarni Jónsson:

Jeg vildi að eins láta í ljós þá skoðun mína, að jeg er ekki ýkjatrúaður á, að 3. banki bæti mikið úr þeim göllum á viðskiftalífinu í landinu, sem hv. 1. þm. Reykv. (Sv. B.) talaði um. Jeg hefi sjeð fleiri en 3 menn ganga í fjelag, til að bæta sinn eigin hag. En Landsbankinn á að vera svo sterkur, að hann geti haldið því niðri. Það er saga að segja frá því, þegar jeg kom fyrst í bankaráð Íslandsbanka. Jeg spurði, hvers vegna vextir væru svo háir. Þeir í Íslandsbanka svöruðu því, að það væri vegna Landsbankans, því að hann þyrfti að nota svo mikið erlent lánsfje og gæti því ekki staðist samkepnina, nema með svona háum vöxtum. Jeg gerðist ekki ánægður og fór í Landsbankann og spurði, hvort þetta væri satt, og svarið var játandi. Það þyrfti því að gera Landsbankann svo voldugan, að hann gæti haft þau áhrif, sem hinn nýi banki á að hafa.