24.02.1920
Neðri deild: 11. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 159 í C-deild Alþingistíðinda. (1067)

42. mál, skipaferðir milli Íslands og Gautaborgar

Magnús Kristjánsson:

Jeg vil að eins lýsa því yfir, að mjer finst mál þetta of lítið undirbúið til þess, að það geti fengið afgreiðslu á þessu þingi.

Jeg hefði viljað, að slíkt mál hefði komið frá stjórninni, og að fylgt hefðu því öll þau skilríki og allar þær upplýsingar, sem nauðsynlegar eru.

Jeg efast um, eftir öllu útliti að dæma, að við myndum njóta eins mikils góðs af þessum ferðum, ef þær kæmust á, eins og hv. þm. Dala. (B. J.) hjelt fram. Jeg álít óþarflega mikið gert úr þeim hlunnindum, sem landið mundi öðlast af þessu. Jeg er í vafa um, að okkur hlytist nokkuð gott af því. Mjer þykir ekki ugglaust um, að ógagn kynni að geta hlotist af því, að greiða götu þessarar þjóðar til atvinnurekstrar hjer á landi. Ef svo væri, þá veit jeg, að hv. þm. Dala. (B. J.) er svo viðkvæmur fyrir íslensku þjóðerni, að hann vill ekki, að það bíði á neinn hátt tjón af sambandi við aðrar þjóðir. Jeg álít það stefnu Svíanna að framleiða hjer svo mikið af síld, sem þeir þurfa, ekki einungis til heimanotkunar, heldur einnig það, sem þeir geta flutt út til annara landa. Og ef þetta liggur á bak við, þá sjá allir, hve eftirsóknarvert það er fyrir okkur, að ætla að styrkja þá til þess.

Hvað því viðvíkur, að það sje óhagur fyrir okkur, að varan gangi í gegnum Kaupmannahöfn, þá get jeg ímyndað mjer, að sama ætti sjer stað, þótt hún gangi í gegnum Gautaborg, því víst er það, að Svíar nota ekki sjálfir alla síldina, heldur flytja mikið af henni út. Og þá verður sama uppi á teningnum fyrir okkur, og álít jeg engu ver farið, þó að Kaupmannahöfn sje höfð sem millistöð, en þó að Gautaborg væri það. Mjer finst nauðsynlegt, að málinu sje vísað til nefndar, og þá líklega helst til fjárveitinganefndar, og mjer þykir líklegt, að nefndin líti svo á, að þessi fjárveiting megi bíða næsta þings.

Það er alt útlit fyrir, að ekki verði eins erfitt að fá skip á leigu eins og undanfarið. Þess verður vonandi heldur ekki langt að bíða, að Eimskipafjelaginu okkar vaxi svo fiskur um hrygg, að það geti eignast fleiri skip, svo það geti betur fullnægt þörfum okkar. Þar að auki finst mjer það allóviðfeldið að fara að veita erlendum fjelögum styrk til að halda uppi ferðum hingað, og þótti, sem sagt, hv. þm. Dala. (B. J.) gera helst til mikið úr þeim hlunnindum, sem af þessum ferðum myndu leiða fyrir þjóð vora.