24.02.1920
Neðri deild: 11. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 169 í C-deild Alþingistíðinda. (1073)

46. mál, Landsbanki Íslands sem hlutabanki

Flm. (Bjarni Jónsson):

Það hefir vakað fyrir mjer, sem öðrum, að einhverra bragða yrði að leita til þess að styrkja Landsbankann, sem ætti að vera til þess að hafa eftirlit í verki með allri peningaverslun í landinu. Hann ætti að vera svo sterkur, að aðrar peningastofnanir tækju ekki of mikið fje í leigu fyrir lán sín. En þessu er nú annan veg farið, því að eins og vjer vitum, hefir bankinn lengi barist við dauðann, síðan hlunnindi voru frá honum tekin og veitt annari stofnun. Það var ekki vel ráðið að gefa erlendu gróðafjelagi svo lausan tauminn; slíkt ráðlag hefir aldrei gefist vel. Má nefna því til sönnunar mörg dæmi úr sögunni, t. d. Egypta.

Hjer er nú till. frá mjer, sem er viturleg ráðstöfun, þess efnis, að Landsbanki Íslands verði gerður að hlutabanka. Til eru menn hjer í landinu, sem vilja ljá mönnum fje sitt fyrir ákveðna leigu. Og svo er mikill áhugi fyrir þessu, að hjer hefir verið borið fram frv. í þessu skyni og beiðst nokkurra rjettinda. Og það er harðneskja að banna mönnum að leggja fje sitt í þetta. Jeg vil veita mönnum þetta. Betur verður fje þeirra ekki trygt, en að leggja það inn í lánsstofnun, sem stendur undir svo sterkri vernd, að hún er eign sjálfs ríkisins; með því er sjeð fyrir hag þeirra. En jafnframt er og betur sjeð fyrir hag landsmanna, því að þegar slík fyrirtæki eru stofnuð, vilja menn fá að vita, hvaðan stofnendurnir hafa fjeð og hvort þeir hafa yfirleitt nokkuð. Hitt er ósvinna, ef þeim eru veitt fríðindi áður fjárins er aflað.

Það er miklu skynsamlegra að gera Landsbankann að hlutabanka heldur en að setja á stofn þriðju peningastofnunina. Afleiðingin af því mundi verða sú, að hann gæti tekið sparisjóðsfje af hinum bönkunum. En það mundi horfa til hins verra, því að þetta er eina fjeð, sem Landsbankinn hefir yfir að ráða. Ef þriðji bankinn fengi þessi rjettindi, gæti hann boðið hærra í þetta geymslufje, og þar með væri lokuð leið að rjetta við hag Landsbankans, og öll verðbrjef mundu falla að miklum mun, sjálfsagt niður í 75%. Þetta mundi verða afleiðingin af því, að nokkrum mönnum yrði leyft að græða á bankastofnun. En af hinu stafar engin hætta, heldur er það þvert á móti hjálp við landsmenn; því sterkari, sem Landsbankinn væri, því hægra ætti hann með að hlaupa undir bagga með atvinnuvegum landsins.

Það er því auðsætt, hverja leið ber að fara í þessu efni. Að minsta kosti er það þó augljóst, hvað gera skal við hina umsóknina. Og jeg vona, að þm. taki þessu máli mínu vel. Með því mundi þingið styrkja þá peningastofnun, sem væri fær um að halda öðrum peningastofnunum í skefjum.

Jeg skal geta þess, að jeg hefi leyft mjer að bera fram annað frv., sem ekki er hjer til umr., þess efnis, að menn geti ekki ráðist í að setja á fót bankastofnun hjer á landi án þess að stjórnin hafi eftirlit með þeim. Jeg vona nú, að menn leyfi frv. að ganga fram, en ef þeim finst tíminn skammur, þá er ekki annað en að láta frv. ganga því greiðar fram.