24.02.1920
Neðri deild: 11. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 171 í C-deild Alþingistíðinda. (1075)

46. mál, Landsbanki Íslands sem hlutabanki

Sveinn Björnsson:

Jeg gerði það í mesta sakleysi að stinga upp á því, að málinu væri vísað til fjárhagsnefndar, og ástæðan til þess var sú, að öllum hv. þm. var það ljóst, að þetta mál mun í raun og vera þurfa allrar athugunar við. Það liggur ekki heldur fyrir frá hv. flm. (B. J.) sjálfum álit stjórnar Landsbankans um þetta frv., en álit hennar hlýtur að koma hjer til greina.

Jeg er nú þeirrar skoðunar, og hefi lengi verið, að það sje alveg rjett að gera Landsbankann að hlutafjelagsbanka, en að gera það svona í einum hvelli, á þessu stutta þingi, og án þess að fyrir liggi álit stjórnar bankans um það, er naumast rjett aðferð. Annars var það alls ekki tilgangur minn að tefja fyrir málinu með því að stinga upp á nefnd, heldur var það einmitt gert til þess, að hv. nefnd gæti undirbúið það, sem mjer fanst vanta.