24.02.1920
Neðri deild: 11. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 171 í C-deild Alþingistíðinda. (1076)

46. mál, Landsbanki Íslands sem hlutabanki

Flm. (Bjarni Jónsson):

Jeg vil ekki gera það að neinu kappsmáli, hvort málinu er vísað til nefndar eða ekki, því að það er að sumu leyti satt, sem hv. 1. þm. Reykv. (Sv. B.) sagði, að málið er ekki svo undirbúið, sem skyldi, til þess að ljúka við það, en með því að þetta er að eins heimild fyrir hina nýju stjórn, og jeg, sem ekki styð hana, trúi henni fyrir því, þá ætti hv. 1. þm. Reykv. (Sv. B.), sem er stuðningsmaður hennar, að trúa henni fyrir því. En ef þetta mál á að fara til nefndar, þá vil jeg skora á hana að útvega þegar í stað álit bankastjórnarinnar, og láta svo málið koma fyrir þingfund á morgun, og af því að þingstörfin yfir höfuð fara í flugvjel hjer, þá getur líklega þetta mál fengið að hanga aftan í henni.