10.02.1920
Sameinað þing: 1. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 18 í B-deild Alþingistíðinda. (11)

Rannsókn kjörbréfa

Bjarni Jónsson:

Hv. þm. Seyðf. (Jóh. Jóh.) talaði um 50 atkvæði, sem einhver vafi leikur á um. En þeim er þannig varið, að þau fá engu breytt um kosninguna. (Jóh. Jóh.: Getur verið ágreiningur um þau). Enginn ágreiningur. Þau breyta í engu kosningunni. Ef svo væri, væri líka sjálfsagt að taka þau til nákvæmrar athugunar, en nú verður ekki að gert, nema hv. þm. Seyðf. (Jóh. Jóh.) vilji taka upp á því að brjóta lögin.

Hv. frsm. (E. E.) talaði um hálar brautir og hættulegt fordæmi. Hjer er einföld og saklaus kæra yfir því, að fáeinir menn, sem ekki hafa náð fullkomlega kjöraldri á kosningadegi, hafi kosið. Það er lítilfjörlegur formgalli, sem ekki sýnist geta orðið að hættulegu fordæmi. Teldi jeg rjettara að vinna að því, að koma samræmi á kosningalögin, að allir mættu kjósa, þeir er á kjörskrá standa, enda mun það löggjafans meining verið hafa, að til kjörskrár væri vandað, en eigi jafnklaufalega útbúin sem nú hefir raun á orðið. Og víst er, að aðrir og miklu meiri ágallar hafa komið fyrir og ekki verið talið neitt hættulegt, og gætir hjer að líkum meira kapps en forsjálninnar, að slíkt komi eigi oftar fyrir. Liggja hjer og næg rök fyrir, hverjar afleiðingar dráttarins verða, að ef kosningin ónýtist, þá dregst á langinn um kosningu aftur, sem varla mun fara nema á einn veg. Mundi og betur haga að flýta fyrir um fjölgun þingmanna Reykjavíkur, og ætti kjörfylgismönnum Jóns Magnússonar að þykja hagur að, því vandalaust ætti þeim að vera að koma honum að við hlutfallskosningu, eða að minsta kosti auðveldara en annars. Mætti það verða eins fljótt með þeim hætti sem með þessum.