27.02.1920
Neðri deild: 16. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 183 í C-deild Alþingistíðinda. (1102)

52. mál, afnám laga um húsaleigu í Reykjavík

Bjarni Jónsson:

Jeg ætla að eins að bæta við örfáum orðum.

Jeg sje ekki, hver nauðsyn er á því, að ein sjerstök stjett, á sjerstökum bletti, sje ósjálfráð eigna sinna Ef almenn nauðsyn hefði kallað, þá hefði það að sjálfsögðu verið rjett, að stjórnin, eða bæjarstjórnin, hefðu tekið húsin eignarnámi og goldið eigendum þeirra fult verð fyrir, og síðan ráðstafað þeim eftir eigin geðþótta.

En nú er friður undirskrifaður, og sje jeg ekki, til hvers er að hafa lögin lengur. Einkum þegar þau hafa unnið á móti sjálfum sjer, með því að enginn hefir þorað að byggja, því menn geta setið fastir í íbúðum sínum, þótt þeim sje sagt upp. Þetta er ekki til að hjálpa alþýðu, heldur hinum efnuðu, sem annars gætu bygt. Ef herbergi losnar hjá manni, þá þorir hann ekki að leigja það út, því hann getur átt það á hættu, að leigjandinn sitji fastur. Þess vegna fá færri inni en ella. Bæjarstjórnin álítur sig hafa rjett til að ráða bæjarbúum; kann að vera, að það sje að vissu leyti rjett, ef bæjarstjórnin hefði sýnt sig að vera starfinu vaxin. En að láta einstaka menn gjalda þess, þegar ekki er brýn þörf, álít jeg ekki rjett. Beinasti vegurinn til að sjá Reykjavík fyrir viðunanlegu húsnæði, hefði verið að láta fólk ekki hrúgast inn í bæinn á ári hverju, nema því að eins að skylda það til að byggja, eða blátt áfram banna innflutning nema brýn nauðsyn kalli; t. d. með embættismenn, sem fara úr einu embætti í annað. En banna fólki, sem ella gæti unnið annarsstaðar, t. d. að landbúnaði, eða því um líku. Þetta hefði bæjarstjórnin átt að gera frá byrjun stríðsins og öll stríðsárin, og þá hefði það sýnt sig, að húsnæðismálið hefði verið í betra horfi.