27.02.1920
Neðri deild: 17. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 187 í C-deild Alþingistíðinda. (1110)

55. mál, lánsheimild til ostagerðarbús

Frsm. (Stefán Stefánsson):

Hv. þingdeildarm. mun það kunnugt, að þinginu hefir borist erindi um það frá eigendum ostagerðarbúsins í Sveinatungu, að þeir fengju að láni 20 þús. kr. Ástæðan til þessa er sú, að á búinu hvíla víxlaskuldir, að upphæð rúmar 20 þús. kr., og má búast við, að krafist verði greiðslu á þeim þegar minst varir, og auk þess eru af þeim háar vaxtagreiðslur. Þar sem búið er nú nýlega stofnsett, og þar af leiðandi ýmsir örðugleikar, þá sjá þeir sjer ekki fært að reka það, nema að fá lán, er standa mætti um nokkur ár, og þá með vægum vaxtakjörum, t. d. 5%, eins og vanaleg viðlagasjóðslán. Á búinu hvílir nú þegar 10 þúsund kr. skuld við viðlagasjóð. Að þá var ekki fengið meira lán stafaði af því, að þá var ekki ætlunin að reka búskap, heldur kaupa mjólk til ostagerðarinnar hjá bændum. En brátt kom það í ljós, að það eitt gat orðið fyrirtækinu til framhaldsþrifa, að það gæti rekið fjárbú. Bundust því nokkrir menn, sem höfðu sjerstaklega trú á þessu fyrirtæki, í fjelag, og keyptu fjölda af ám af völdu mjólkurkyni, einkum vestan úr Önundarfirði og af Snæfjallaströnd. Þar sem sú reynsla er þegar fengin, að ostur sá, sem ostagerðin framleiðir, er besta eftirlíking af Rockefort-ostinum, sem nú þekkist, þá virðist það mjög misráðið að hverfa frá því, að styrkja fyrirtækið, þar eð það einu sinni hefir verið viðurkent með lánveitingu frá þinginu. Með þessu 10 þús. kr. láni hefir þingið slegið því föstu, að hjer væri atvinnuvegur, sem vert væri að styðja að einhverju leyti. Eftir að fjárveitinganefnd hafði athugað og kynt sjer þetta mál sem rækilegast, var hún ekki í nokkrum vafa um það, að hjer bæri að lána alt að 20 þús. kr. gegn þeirri tryggingu, er stjórnin teldi nægilega.

Hefi jeg svo ekki frekar um þetta mál að segja að sinni, en vænti þess, að það fái góðar undirtektir.