24.02.1920
Neðri deild: 11. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 161 í C-deild Alþingistíðinda. (1123)

42. mál, skipaferðir milli Íslands og Gautaborgar

Gísli Sveinsson:

Jeg stend að eins upp vegna þess, að mjer væri forvitni á að vita hjá flm. (B. J.), hvort nokkurt tilboð lægi frammi frá Svíum til að takast á hendur ferðir þessar.

Hv. frsm. (B. J.) gat þess, að það lægi ekkert beinna við, að Svíar tækju ferðir þessar að sjer, frekar en við Íslendingar, en viðvíkjandi þessu atriði, að komið gæti til mála, að við hjeldum uppi ferðunum, vil jeg leyfa mjer að gefa nokkrar upplýsingar.

Fyrir samgöngumálanefnd liggur tilboð, afhent henni af landsstjórninni, frá Falk í Stavanger, þess efnis, hvort Íslendingar vilji styrkja beinar ferðir til Noregs, eða stuðla að því með fjárframlögum, að beinar skipaferðir komist hjer á milli.

Samgöngumálanefnd gat auðvitað ekkert um þetta sagt upp á sitt eindæmi, en sneri sjer til Eimskipafjelagsins. Framkvæmdarstjóri Eimskipafjelagsins ljet það í ljós, að hjá því fjelagi væru engin tök til að hafa á hendi slíkar ferðir, því til þess þyrfti fjelagið að eiga 4 skip, en ætti að eins 2. Samgöngumálanefnd gat því ekkert gert frekara við málið að þessu sinni, og vildi ekki fara fram á það, að veittur yrði styrkur til að halda uppi slíkum ferðum. Hún áleit þetta framtíðarmál, sem ekki væri hægt að framkvæma nú í svipinn, og gaf því að öðru leyti hlý orð meðferðis aftur til stjórnarinnar.

Þessu máli er mjög líkt komið og því, sem hjer er til umr., og þó er það, sem hjer er verið að ræða, sýnu óákveðnara og að öllu leyti ver undirbúið.

Hjer er verið að ræða um það, að veita fje út í bláinn, án þess að nokkur viti, hvernig á að haga ferðunum o. s. frv. En það getur engum dulist, að hjer þarf að liggja meira fyrir, ef nokkuð á að útkljá í málinu. Það er því mín till., að málinu verði vísað til samgöngumálanefndar, en vafalaust afgreiðir hún það ekki um sinn, fremur en hitt málið, er jeg nefndi.