24.02.1920
Neðri deild: 11. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 162 í C-deild Alþingistíðinda. (1124)

42. mál, skipaferðir milli Íslands og Gautaborgar

Flm. (Bjarni Jónsson):

Jeg hefi hlýtt á mál manna, og orðið dálítið hvumsa við að heyra menn tala um þetta undirbúningsleysi.

Nokkur ár eru síðan að þingið veitti styrk til að halda uppi ferðum milli Íslands og Gautaborgar, og var þá enginn styrkur af Svía hálfu. Undirbúningur frá hálfu flutningsmannsins er sá sami og þá, en undirbúningur af rás viðburðanna er miklu meiri nú, því nú getur verið að bráðliggi á, að þessar ferðir hefjist.

Þá vil jeg snúa mjer að hv. þm. V.- Sk. (G. Sv.), sem fáraðist um það, að enginn hefði boðist til að taka að sjer ferðir þessar. Jeg veit ekki til, að um neitt útboð hafi hjer verið að ræða, svo það er naumast von á því, að nokkur tilboð hafi komið. En engan vafa tel jeg á því, að næg boð mundu fást þegar til kæmi.

Mjer er kunnugt um það, að 2 eru menn í Gautaborg, sem hafa auglýst, að þeir tækju að sjer að halda uppi ferðum milli landa, og get jeg búist við, að þeir myndu fáanlegir til að taka að sjer þessar ferðir, en vil þó ekkert á þeim byggja, þar sem tvennum sögum fer af traustleik þeirra.

Jeg hefði ekki látið mig þetta mál svo miklu skifta, hefði jeg vitað það, að einhver var fenginn til að halda uppi þessum ferðum, en einmitt vegna þess, að jeg vissi, að enginn var fenginn, og vegna þess, að jeg hugði, að enginn vildi taka að sjer ferðirnar, nema fá styrk til þess, einkum ekkert sænskt fjelag, þá hefi jeg komið með mál þetta hjer inn á þingið.

Satt er það hjá hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.), sem hann hafði eftir Eimskipafjelagsforstjóra, að það fjelag hafi ekki skipastól til að takast slíkar ferðir á hendur, eða halda uppi sambandi við Ísland og Noreg, eða Ísland og Svíþjóð. Jeg er ekki í vafa um það, að við verðum þess megnugir í framtíðinni að annast allar okkar ferðir sjálfir, en þá getur þessi styrkur fallið niður eða gengið til ísl. fjelags. En þar sem jeg hafði búist við styrk frá Svíþjóð, þá finst mjer ekki fjarri, að við látum eitthvað af hendi rakna, svo að ferðirnar geti hafist nú þegar. Jeg sje ekki, að af þessu þyrfti nein hætta að stafa, hvorki fyrir land eða þjóð; alt eftirlit myndi verða í höndum stjórnarinnar, og hún gæti því beitt valdi sínu eftir því, sem hún álíti best og hagkvæmast. Satt er það hjá hv. þm. Ak. (M. K.), að viðkunnanlegra hefði verið, að þetta hefði komið frá stjórninni. En ekki er jeg stjórn og ekki gat jeg ráðið því, að hún kæmi með málið fyrir þing, en einmitt þess vegna flutti jeg það, að jeg vildi verða hjer að gagni, ef auðið væri, og reyna að forða landinu frá tjóni af vanasvefni stjórnarinnar.

Það breytir engu um rjettmæti þessa máls, hver það ber fram, og vænti jeg þess, að málið verði ekki látið gjalda þess, þó að það komi frá mjer, en ekki stjórninni.

Hv. sami þm. (M. K.) gerði lítið úr þeim ágóða, sem yrði fenginn með því að flytja síldina beint til Svíþjóðar og geyma hana þar, þar til hún seldist. En þess er ekki að dyljast, að vjer höfum, að minsta kosti í ár, tapað á því, að síldin var flutt hjeðan til Kaupmannahafnar og geymd þar, en ekki flutt beint til Svíþjóðar. Okkur velviljað fjelag í Svíþjóð hefir reynt að selja síldina fyrir betra verð. Þetta fjelag ætlar að vinna að heill beggja landanna. Og er því trúandi til að vilja okkur vel. Jeg hefi skrifað þessu fjelagi og beðið það að gera tilraun til að selja síldina, en það svaraði, að það væri ekki hægt sökum þess, að í Svíþjóð væri við tóma stórkaupmenn að eiga, en þeir halda síldinni í miklu lægra verði en hún er seld fyrir í smásölu. Þetta fjelag segir, að hægt væri að fá miklu hærra verð, ef t. d. íslenskir útgerðarmenn hefðu síldina geymda í Svíþjóð, og seldu hana þar jafnóðum til smásala.

Það er rjett, sem hv. þm. (M. K.) tók fram, að ekki er að búast við, að öll síld seldist svona. En svo mikið mundi áreiðanlega verða selt á þennan hátt, að ekki væri í þennan fjárstyrk horfandi.

En svo er nú einnig fyrir að þakka, að Gautaborg er ekkert verri millistöð en Kaupmannahöfn, svo síldin væri ekkert ver farin þar en í Kaupmannahöfn, þótt selja ætti hana til annara landa.

Hv. þm. (M. K.) taldi íslenskum atvinnuvegum stafa hættu af samkepni annara þjóða, og þá sjerstaklega íslenskum síldaratvinnuvegi af sænskri samkepni; en þetta mundi jafnvel verða til að lyfta undir sænsku samkepnina.

Jeg gæti að vísu hugsað mjer, að það gæti stafað hætta af sænskri samkepni. En jeg hefi ætíð verið, og mun verða, fús til að setja skynsamleg takmörk, er mættu girða fyrir það. Að þetta sje ekki staðlaust fleipur mun hv. þm. (M. K.) meðal annars geta sannfærst um af því, að jeg hefi nú lagt til, að bætt yrði einnig grein inn í hegningarlögin um það, að refsa botnvörpuveiðaleppum. Hygg jeg þetta fulla sönnun þess, að jeg muni ekki síðstur til að vernda atvinnuvegi vora.

Enda fer þessi till. einmitt í þá átt, að vernda íslenska síldarútveginn, því það mundi einatt efla atvinnuveginn, ef síldin seldist ætíð vel. Með því yrði einmitt afstýrt hættu, en ekki leidd hætta yfir útveginn.

Einnig mundi það ekki spilla fyrir okkur, ef við sýndum erl. þjóðum, að við gætum selt vöruna ódýrar með því að vera sjálfir milliliðir en milliliðir þeirra sjálfra. Hygg jeg, að flestar þjóðir myndu heldur unna okkur rjetts verðs en sinnar þjóðar mönnum okurverðs. Þetta mundi ekki heldur á neinn veg freista Svía til að keppa við Íslendinga, heldur þvert á móti, enda eru Svíar hvort sem er ekki verstu keppinautarnir.