10.02.1920
Sameinað þing: 1. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 20 í B-deild Alþingistíðinda. (13)

Rannsókn kjörbréfa

Jóhannes Jóhannesson:

Jeg stend upp vegna ræðu hv. þm. Dala. (B. J.) Það er ekki eins skýrt eins og hann vildi vera láta, hvort atkvæðaseðill í tvímenningskjördæmi er ógildur, ef að eins einum frambjóðanda er greitt atkv. Þetta er hvergi tekið fram í lögum og því ástæða til að gera út um það í eitt skifti fyrir öll. Það er heldur ekki rjett, sem borið hefir verið fram, að um þetta hafi aldrei verið deilt, því í yfirkjörstjórn Reykjavíkur kom fram ágreiningur um þetta atriði, einmitt við þessa kosningu, og þar kom fram sú skoðun hjá mjög skýrum og mikils metnum lögfræðingi, að slíkir seðlar væru gildir. Jeg veit ekki til, að þingið hafi nokkru sinni skorið úr um þetta, og er því nú mál til komið, að það verði gert.

Jeg veit ekki, hvort 1. kjördeild hefir athugað væntanleg áhrif þessara seðla á úrslit kosninganna, ef þeir væru teknir gildir; yfirkjörstjórnin rannsakaði það ekki.

Ef ekki væri annað athugavert við kosninguna en það, að 15 ókosningabærir menn hefðu kosið, þá gæti jeg verið mönnum sammála um það, að skera úr um gildi hennar þegar í stað, og sama máli er að gegna um afstöðu þingmanna Reykjavíkur hvors til annars, eða hvort báðir eða annar eða hvorugur skuli vera talinn löglega kosinn. En þessir 50 seðlar eru rannsóknarefni, og tel jeg rjett, að þingið skeri úr því til eftirbreytni alment, hvort seðlar í tvímenningskjördæmi skuli gildir, ef að eins einum frambjóðandanna er greitt atkvæði á þeim.