20.02.1920
Neðri deild: 8. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 80 í B-deild Alþingistíðinda. (141)

8. mál, þingmannakosning í Reykjavík

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg skal geta þess, sem jeg gat ekki komið að við 1. umr., að þótt alt ráðuneytið væri á einu máli um það, að rjett væri að fjölga þm. Reykjavíkur, þá vildu hinir ráðherrarnir ekki binda sig til þess að fjölga þeim svo mikið, sem jeg hefi farið fram á í þessu frv.

Það mætti má ske ætla, að jeg gæti, eftir undirtektum hins háa Alþingis, verið ánægður með undirtektir hinnar hv. nefndar. En svo er ekki. Jeg hefði getað sætt mig við, ef viðbótin hefði verið 3. En þá hefði þó ekki verið tjaldað nema til einnar nætur, því Reykjavík vex stöðugt, svo að 6 þingmenn eru hið allra minsta til frambúðar. Það hefir að vísu verið sagt, að ekki mundi líða á löngu, uns kjördæmaskiftingin öll yrði tekin til meðferðar, og að þá mundi Reykjavík fá bætt upp þetta misrjetti. En það er bágt að segja, hve nær þetta getur orðið. Jeg býst við, að það verði harla erfitt hjer á landi, sem annarsstaðar, að fá fyllilega rjettláta kjördæmaskiftingu. Það hefir alstaðar reynst svo. Jeg vona því, að háttv. deild samþykki að minsta kosti varatill. hv. 1. þm. Reykv. (Sv. B.).

Um ástæðurnar fyrir fjölgun þm. í Reykjavík get jeg annars látið mjer nægja að vísa til athugasemdanna við frv. Þar er sýnt fram á að það er ranglátt, að þm. sjeu færri en 6, saman borið við önnur kjördæmi landsins.

Hins vegar vil jeg mæla eindregið á móti því, að breytingar í þessu efni nái nema til Reykjavíkur. Ef hv. þm. Dala. (B. J.) vill hafa fram breytingar á kjördæmaskipun eða fjölgun þm. annarsstaðar, þá getur hann komið fram með sjerstakt frv. þar um. Að fara að blanda nú breytingum fyrir utan Reykjavík inn í þetta frv. yrði að eins til að eyðileggja það, án þess nokkuð væri unnið fyrir önnur kjördæmi.

Það má vel vera, að ástæða sje að gera ráð fyrir því tilfelli, að kjósa þurfi um einn mann að eins, og á þá hlutfallskosningin ekki vel við. Rjettast væri má ske að hafa hjer varaþingmenn, eins og við landskjörið. Ef þingmenn Reykjavíkur yrðu 6, yrði hlutfallið alveg eins.

Jeg álít ekki þörf á að eyða frekari orðum um þetta mál. Ástæðurnar, sem frsm. (Þór. J.) færði fyrir fækkuninni, eru ekki nýjar. Þær hafa komið fram áður hjer á þingi og verið mótmælt með þeirri einföldu ástæðu, að allir kjósendur eiga jafnan rjett til að hlutast til um skipun þingsins, það er að segja, þingmannatalan á að fara eftir kjósendafjöldanum, og tölu þingmanna hvers kjördæmis verður að miða við kjósendafjölda kjördæmisins. En fullkomið rjettlæti verður ekki fengið í þessu efni, nema með hlutfallskosningu almennri.