20.02.1920
Neðri deild: 8. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 85 í B-deild Alþingistíðinda. (143)

8. mál, þingmannakosning í Reykjavík

Bjarni Jónsson:

Jeg verð að lýsa því yfir, að mjer finst ekki of langt farið í frv. stjórnarinnar með fjölgun þm. í Reykjavík, og jeg tel það vel ráðið að hafa hlutfallskosningu. Reykjavík er það kjördæmi, sem mest er skift í atvinnuvegi. Verkamenn eru að verða fjölmennur flokkur, en þó ekki svo fjölmennur, að þeir geti ráðið kosningu. Og ef flokkar skiftust í tvent í Reykjavík, þá kæmi fjölmennari flokkurinn öllum þm. að, en hinu engum. Jeg tel því rjettara að hafa hlutfallskosningu, svo báðir eða allir flokkar komi einhverjum að. En þingmenn mega ekki vera of fáir, því að hjer eru mannmargir flokkar, sem eru öndverðir hver öðrum. 2 þm. fyrir hvern er of lítið, veitti ekki af 3 þm. Eins tel jeg fullmikið að bæta við 4, ef tala hinna helst óbreytt. Því jeg vil ekki fara eftir fólksfjölda eingöngu; það er hvergi gert, og síst hjer. Sýslurnar eru nokkurskonar undirríki og þurfa talsmenn á Alþingi. En það má fara svo nærri því rjetta, sem auðið er. Það væri því ekki of mikið, þótt Reykjavík fengi 6 þm., ef um leið væri fjölgað í öðrum kjördæmum. Það væri sæmilegt, að Reykjavík fengi 6 þm., ef þm. væri fjölgað upp í 48.

Hæstv. forsætisráðh. (J. M.) taldi mig vinna á móti þm.-fjölguninni í Reykjavík með þessari till. minni, en jeg hygg, að ef hin hv. deild fellst á þetta, þá verði fleiri til að greiða atkvæði með þm.-fjölguninni, og verði till. því heldur til styrks en mót stöðu. Ef athugaðar eru fastanefndir við þingið, þá er ekki hægt að draga í efa, að nauðsyn er á að fjölga þm. Það er ekki von, að nefndirnar sjeu allar vel skipaðar, þegar 1 þm. þarf að vera í 2 nefndum og fleirum, ef aukanefndir eru. Alþingi gefur sjer ekki tíma til að sitja yfir og vanda verk sín; það er heimtað, að menn sjeu fljótari en þeir geta verið, þar sem þeir eru svo ofhlaðnir störfum. Og það, sem þeir fá afkastað áður en þeir strjúka af þingi, er oft næsta lítið. En það er fleira, sem mælir með fjölgun þm. Þótt jeg sje fyrir bændakjördæmi og mjer sje skylt að sjá um hag bænda, þá óska hvorki jeg nje kjósendur mínir, að hagur annara stjetta sje fyrir borð borinn. Ósk mín og þeirra er sú, að jafnvægi haldist, en eins og menn vita, þá hefir sjávarútvegurinn ekki haft eins marga fulltrúa og hann hefði þurft að hafa, og margt hefir verið gert í þeim efnum, sem betur væri ógert. Á jeg þar aðallega við skatta og álögur. Ekki ber að skilja orð mín svo, að jeg telji þá of háa á þessari atvinnugrein, en þeir koma rangt niður, oft verst þegar verst gegnir. Þekking er ekki síður nauðsynleg á þessu sviði en hinum. Nú hefi jeg hugsað mjer að bæla úr þessu með því að bæta við í nokkrum kjördæmum, og yrði það þá einkum sjávarútvegskjördæmi. Þar sem svo stendur á, að í öðrum helmingi kjördæmis er sjávarútvegur aðalatvinnugrein, en í hinum landbúnaður, þá vil jeg, að því sje skift. Þess vegna er það till. mín, að Hafnarfjörður fái einn þm. fyrir útvegsmenn og verkamenn, eins og sumir af þm. Reykjavíkur auðvitað verða. Stokkseyri og Eyrarbakki yrðu sjerstakt kjördæmi, og yrði það fyrir sjávarútveg, Hnappadalssýsla og Skógarströnd yrðu kjördæmi, landbúnaðarkjördæmi en Snæfellsnessýsla yrði einnig 1 kjördæmi, sjávarútvegskjördæmi. Þá vil jeg, að Barðastrandarsýslu sje skift þannig, að annar þm. sje fyrir landbúnað, en hinn fyrir sjávarútveg. Jeg skal játa það að til eru kjördæmi, sem eru fjölmennari en Barðastrandarsýsla og Hnappadalssýsla, t. d. Suður-Þingeyjarsýsla, en það er nær eingöngu landbúnaðarkjördæmi, svo það á betra með að nýta 1 þm. Norður-Þingeyjarsýsla er mannfá og hefir 1 þm., og þá hafa Þingeyjarsýslurnar 2 þm. til samans, og er þeim þá ekki ver borgið en öðrum. Þá eru auk þeirra þm., sem fyrir eru, hluti þingsins, til að sjá um hag sjávarútvegsins, og tel jeg það vel í hóf stilt. Jeg vona, að það verði til þess, að málum sjávarútvegsins verði betur borgið hjer eftir en hingað til, og það verði betur og rjettlátlegar lagt á. Jeg vil aftur taka það fram, að jeg tel gjöldin ekki of mikil, en það er víða lagt svo óþyrmilega á, að það lendir þar, sem ekki skyldi. Jeg vil ekki teljast undan því, hvorki fyrir landbúnaðinn nje sjávarútveginn, að lagt sje á ágóða, en það tel jeg of langt farið, þegar lagt er á skaða. Til dæmis síldartollurinn. Eigendurnir verða að gjalda af tunnunum, þó þær liggi óseldar og eyðileggist. Þetta er hægt að forðast, ef þekking væri á þingi á þessum efnum.

Jeg hefi líka lagt til, að tvímenningskjördæmum yrði skift í einmenningskjördæmi, og bæri að gera það vegna þess órjettar, sem þar kemur fram við minni hlutann. Eitt atkvæði getur skorið úr, svo að fjölmennari flokkurinn fái báða þm., en fámennari flokkurinn engan. Þetta má laga með hlutfallskosningu, en þó tel jeg heppilegra að skifta kjördæmunum, og taka þá tillit til hlutfallsins milli atvinnuveganna, en að öðru leyti ráði fólksfjöldi og staðhættir, og stjórnarráðið ráði framkvæmdum. Það er ekki svo, sem hv. 1. þm. Reykv. (Sv. B.) talar um, að þetta væri vandaverk. Stjórnarráðið ætti að geta lokið því af á ½–1 tíma, því það hefir skýrslur og landabrjef í höndum og alt, sem með þarf. Það er langt frá því, að kjördæmaskipunin yrði flókin og óaðgengileg, þótt þetta ráð yrði tekið.

Annað vil jeg benda þeim hv. þm. á, sem aldrei vilja sitja hjer lengur en brýnasta þörf krefur. Það er betra að taka þetta alt í einu máli og eitt skifti fyrir öll heldur en að vera að smábreyta á hverju þingi. Maður á að vera verksýnn og vinna sem mest þegar unnið er. Þegar 2 frv. eru um sama efni, þá kosta þau 6 umræður í hvorri deild. Í staðinn fyrir 3 umræður ef það væri 1 mál. Annars er málið afareinfalt. Það er að eins að greiða till. minni atkvæði, og sparast með því tími, og lausn verður fengin, sem viðunandi er.

Jeg ætla ekki að fjölyrða um þetta meira að sinni, en ætla að biðja hv. þm. að minnast þess, þegar þeir seinna hafa orðið að fallast á, að mínar till. eru rjettar, að jeg hefi gefið þeim kost á að samþykkja þær nú þegar. Það er eiginlega ekki mitt hlutverk að berjast fyrir þessu máli, enda er það mjer ekkert kappsmál, að till. mín nái fram að ganga, en jeg álít það skyldu mína að koma skynsamlegu máli fram.