20.02.1920
Neðri deild: 8. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 91 í B-deild Alþingistíðinda. (145)

8. mál, þingmannakosning í Reykjavík

Jakob Möller:

Ekki verður því neitað, að kalt blæs hjer í þessari háttv. deild á móti þessu frv. og þeirri rjettarbót, sem í því felst og ekki lýsir sjer lítil þröngsýni í ræðum manna. Þó að þröngsýnin kæmist þó á hæsta stig og allra kaldast bljesi hjá háttv. síðasta ræðumanni (Sv. Ó.). Allir vita, að það er einróma krafa allra stjetta hjer í bæ að fá fjölgað þingmönnnm. Það er ekki að eins krafa hinna ríku, heldur líka „öreigalýðsins“, eins og hv. þm. hafa getað sannfært sig um, ef þeir hafa lesið „Alþýðublaðið“ í gær. Það er einmitt fyrst og fremst krafa þess flokks, sem varð í minni hluta við síðustu kosningar, og mun hann hafa vænst annara undirtekta af háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.).

Ef til vill á hæstv. stjórn nokkra sök á því, að rökræður um þetta mál hafa of einstrengingslega snúist um kjósendafjölda einstakra kjördæma og samanburð á þeim. Það sem hjer skiftir í raun og veru mestu máli, er það, hvað atvinnuvegir manna í þessum bæ eru margbrotnir og frábrugðnir aðalatvinnuvegi alls þorra manna í öðrum kjördæmum flestum, og hvað þeir standa illa að vígi í því að koma fulltrúum sínum á þing, svo að nokkurt jafnvægi geti orðið þar á milli atvinnuvega landsmanna. Krafa Reykvíkinga um fjölgun þingmanna styðst því ekki að eins við rjett þeirra sökum kjósendafjölda, heldur við þörf atvinnuveganna til þess að hafa fulltrúa á þingi að tiltölu eins og landbúnaðurinn. Og það er fleira, sem styður þessa kröfu Reykvíkinga til þess að njóta fulls jafnrjettis við aðra landsmenn. Það er alkunnugt, að Reykjavík ber að mestu leyti skattabyrði landsins, og virðist að svo mikið tillit ætti þó að mega taka til þess, að skýlaus rjettur bæjarins til að hafa áhrif á stjórn landsins sje ekki fyrir borð borinn.

Það kom fram hjá háttv. síðasta ræðumanni (Sv. Ó.), þegar hann mintist á till. háttv. þm. Dala., að hann hirðir ekki um það, að jafnræði komist á milli atvinnuveganna á þingi. Hann mótmælir því, að Reykvíkingar fái 6 þingmenn, af því að þá fái þeir fleiri þingmenn en þeim beri, saman borið við einstök kjördæmi, t d. Suður-Þingeyjarsýslu. Hann hlýtur þó að vita, að sá atvinnuvegur, sem aðallega er stundaður í Suður-Þingeyjarsýslu, á fleiri fulltrúa hjer á þinginu, að tiltölu við fólksfjölda, heldur en atvinnuvegir Reykvíkinga. Það skiftir engu fyrir Suður-Þingeyinga, þó að þeir hafi ekki nema einn mann á þingi, af því að hagsmuna þeirra er gætt af svo mörgum fulltrúum annara kjördæma, og sá „órjettur“, sem þeir verða fyrir, er bættur með því, að önnur landbúnaðarkjördæmi fá meira en þeim ber.

Annars geri jeg ekki ráð fyrir, að það þýði neitt að lengja þessar umræður. Menn eru ekki komnir hingað til að láta sannfærast. En jeg verð þó að eins að vekja athygli háttv. þm. á því, að rangsleitni sú, sem Reykvíkingar eru beittir, með því að láta þá ekki fá að kjósa nema 4 þingmenn, bitnar í raun og veru að eins á einni stjett bæjarbúa, sem með því verður að líkindum algerlega svift atkvæði um landsmál. Það er sem sje alveg óvíst, að verkamannaflokkurinn hjer í bænum komi nokkrum fulltrúa á þing, ef að eins fjórir þingmenn eru kosnir. Og þetta er því ranglátara, þegar þess er gætt, að Reykjavík er eina kjördæmið á landinu, þar sem nokkur von er til, að þessi fjölmenna stjett geti komið fulltrúa að. Og mætti það þó varla minna vera en að allir verkamenn á landinu ættu einn fulltrúa á þingi.

Jeg er sannfærður um, að háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) hefir ekki athugað þetta. Jeg veit, að hvorki hann eða hans flokkur mundi vilja verða til þess að traðka þannig rjetti smælingjanna.

Annað var það, sem háttv. sami þm. (Sv. Ó.) talaði um og lagði mikið upp úr. Það var það, að Reykvíkingar standi betur að vígi með að hafa áhrif á þingið en allir aðrir. Þetta er ekkert annað en staðhæfing, sem ekki er rökstudd á nokkurn hátt, og á því engin áhrif að hafa, hvorki til nje frá. Þá mátti og skilja það á honum, að hann vildi, að sá ljóti óvani legðist niður að kjósa þingmenn, búsetta í Reykjavík, fyrir önnur kjördæmi. Þetta er heldur ekkert kappsmál Reykvíkinga, heldur hitt, að geta notið sinna eigin starfskrafta fyrir sitt kjördæmi, en það geta þeir, ef þingmönnum þeirra er fjölgað eftir rjettmætum kröfum þeirra. Önnur kjördæmi ráða því auðvitað, hverjum þau vilja fela þingmenskuna fyrir sig, en þó að þau kjósi sjer þingmenn búsetta í Reykjavík, þá er rjettarkröfu Reykvíkinga á engan hátt fullnægt með því, enda hvílir engin skylda á öðrum kjördæmum um að kjósa Reykvíkinga á þing.

Um flutning þingsins úr Reyjavík skal jeg ekki orðlengja, en býst ekki við, að sú till. fái byr fyrst um sinn.

Eitt atriði, sem hefir verið athugað af meiri hluta nefndarinnar, er það, að Reykvíkingar standi betur að vígi með að fylgjast með störfum þingsins og neyta kosningarrjettar síns en kjósendur í öðrum kjördæmum, og ætti það frekar að styðja kröfu þeirra um fjölgun þingmanna en hitt, ef það er þá ekki talið alveg einskisvert, hvernig kjósendur fara með atkv. sín.

Um það, að Reykvíkingar standi betur að vígi en aðrir til að koma bestu þingkröftum sínum á þing, má áreiðanlega deila. Hjer er oft líkt á komið og með stjórnarmyndun og sambræðslu flokka. Þegar margir flokkar þurfa að „bræða“ sig saman til þess að koma sjer saman um þingmannaefni, þá getur hæglega farið svo, að enginn vilji í raun og veru líta við þeim, sem fyrir valinu verða. — Þetta má ekki skiljast sem „sneið“ til neins, heldur er þessu nú svona varið, þar sem flokkadrættir eru miklir, eins og hjer í Reykjavík. Úti um sveitir landsins eru flokkadrættir miklu minni, og þar mætti því ætla, að bestu „kraftarnir“ hafi mestar líkurnar til að safna atkvæðum um sig. En ef nokkuð ætti að gera til þess að tryggja það, að einmitt hæfustu mennirnir verði kosnir hjer, þá á einmitt að fjölga þingsætum bæjarins sem mest, svo að síður verði gripið til þess að bræða saman flokka í því skyni að kúga kjósendur til að kjósa ef til vill einhverja þá menn, sem enginn ber neitt traust til.

Jeg skal svo að lokum taka það fram, að jeg mun greiða atkv. með till. háttv. þm. Dala. (B. J.), um enn frekari fjölgun þingmanna en stjórnarfrv. fór fram á, en býst þó við, að þær fái að sinni lítinn byr hjer á þingi.