20.02.1920
Neðri deild: 8. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 94 í B-deild Alþingistíðinda. (146)

8. mál, þingmannakosning í Reykjavík

Sveinn Ólafsson:

Að eins stutt athugasemd. Það kom í ljós í ræðu háttv. 2. þm. Reykv. (Jak. M.), að við erum í raun og veru að sumu leyti sammála. Hann skaut því fram eins og sinni skoðun, að höfðatala kjósenda ætti ekki ein að ákveða þingmannafjölda einstakra kjördæma. Þetta er einmitt það sama og jeg hefi haldið fram. Að eins er þá eftir að meta, hvað annað en höfðatala eigi að ráða, og vandinn er að finna það og miðla svo málum sanngjarnlega. Jeg álít, að nytsemi einstaklinganna fyrir þjóðfjelagið ætti um þetta mestu að ráða, en aðferðin við að meta nytsemdina getur orðið að flóknu deiluefni. Öll málafærslan í þessu máli snýst um höfðatölu þeirra manna, sem efasamt er að sjeu þörfustu þegnarnir.

Ekki veit jeg, hvort hv. 2. þm. Reykv. (Jak. M.) hefir ætlast til þess, að ummæli hans um mig í sambandi við verkamenn og aðra þá umkomuminni hjer í Reykjavík ættu að skiljast eins og viðvörun til „góðra manna“ eða hnjóðsyrði til mín. Slíkt liggur mjer reyndar í ljettu rúmi og allar flimtanir um sambönd við jafnaðarmenn; því fer svo fjarri, að jeg styggist við það, að jeg tel mjer fremur sæmd en óvirðingu að samhygðinni við þá, sem umkomulitlir eru og erfitt eiga. (Jak. M.: Ekki þannig meint). Eins láðist mjer að geta áðan. Ef frv. þetta verður að lögum, hvort heldur það verður eins og stjórnin ber það fram, eða eins og nefndin leggur til, þá geta hlutfallskosningar ekki gagnað þeim, sem ætlast er til að þær komi að haldi, fyr en 1923.

Nú er búið að kjósa 2 þm. fyrir Reykjavík meiri hluta kosningu, og ef 2 bættust við, gæti auðveldlega svo farið, að báðir þeir kæmust að úr meiri hlutanum, og væri þá engu nær hæfi með hlutfallskosningunni. Útlitið er sáraljelegt fyrir því, að verkamenn hafi kosninganna nokkur not fyr en kosið er um alla 4.

Eins og jeg tók fram áður, mun jeg geta greitt atkv. þingmannafjölgun í Reykjavík, þegar Alþingi hefir verið flutt á Þingvöll og lög sett um, að kjördæmakjörnir þm. skuli búsettir í sínum kjördæmum.