20.02.1920
Neðri deild: 8. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 96 í B-deild Alþingistíðinda. (147)

8. mál, þingmannakosning í Reykjavík

Frsm. (Þórarinn Jónsson):

Jeg bjóst við, að fleiri mundu taka til máls, en þar sem jeg sje, að svo er eigi, vil jeg þó bæta nokkrum orðum við framsöguræðu mína, en skal fara fljótt yfir sögu. Jeg get hvorki nje vil skírskota til deildarinnar um að hafa sjerstaka afstöðu í þessu máli; jeg álít, að þar eigi hver að ráða atkvæði sínu óátalið og óhindrað.

Hæstv. forsætisráðh. (J. M.) gat þess, að stjórnin væri ekki öll einhuga um þetta mál. Jeg vissi þetta áður, en mjer er ekki kunnugt um, með hvaða takmörkunum það var.

En þetta er einmitt athugunarefni, að stjórnin sjálf skuli vera skift um málið.

Mundu flestir trúa, að stjórnin, eða sá hluti hennar, sem frv. þessu er mótfallinn, hefði einhver rök að færa fyrir sínu máli.

Reykjavík hefir vaxið hröðum skrefum upp á síðkastið, en ekki verður um það sagt, hve lengi því heldur áfram. En þar sem önnur kjördæmaskifting má segja að liggi í loftinu, álít jeg, að Reykjavík megi gera sig ánægða með 4 þingmenn fyrst um sinn.

Hann (J. M.) mintist einnig á eitt ágreiningsatriði, sem sje það, að það væri rjettlætiskrafa, sem Reykjavík bæri, að fá varaþm. Einn maður í nefndinni var þessarar skoðunar, en nefndinni virtist ekki ástæða til að taka þetta með, sökum þess, að önnur kjördæmi landsins ættu þá einnig kröfu á varaþingmönnum.

Hv. 1. þm. Reykv. (Sv. B.) gat þess, að áhrif þau, sem Reykjavík hefði á þingið, væru engin önnur en góð. Jeg hafði aldrei sagt, að þau væru ill, einmitt getið þess, að þau mundu geta orðið til góðs fyrir kjördæmið.

Öðrum hv. þm. hefir einnig orðið tíðrætt um þessi áhrif, en jeg hygg, að þingmenn sjeu allir svo sjálfstæðir, að ekki geti verið um önnur áhrif að ræða en þau, er verða megi til góðs. Um þetta tók hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) af skarið, og skal jeg ekki vefengja orð hans um, að þau geti að vísu átt sjer stað. En eitt er áreiðanlegt, og það er, að aðstaðan gerir Reykjavík miklu hægara að koma sínum málum fram. Getur verið spurning um það, hvort málin komist nokkuð betur í framkvæmd gegnum sjálfan þingmann kjördæmisins en fyrir áhrif annara á þingmenn.

Hv. 1. þm. Reykv.(Sv. B.) mintist á erfiðleika kjósenda í Reykjavíkurkjördæmi og taldi mikinn hluta kjósenda oftlega ekki fá neytt atkvæðisrjettar síns. En eins og lög þau eru, sem nú gilda, hygg jeg, að kjósendur fái óvíða á landinu betur neytt kosningarrjettar síns. Því víða úti um land eru kjósendur oft og tíðum sviftir atkvæðisrjetti sínum, sökum örðugrar aðstöðu og staðhátta.

Hvað viðvíkur skynsemd og öðrum hæfileikum kjósenda landsins, hygg jeg, að Reykjavík mundi síst ganga út úr þeirri raun með lofi.

Hv. þm. (Sv. B.) sagði, að Reykjavík hefði um áratugi átt við þennan órjett að búa. En þetta er ekki rjett, því að það eru ekki svo ýkjamörg ár síðan til þess kom, að um misrjetti væri að tala, og svo verður henni nú bættur þessi órjettur, ef þm. verður fjölgað um 2, því þá gengur Reykjavík betur frá borði en sum önnur kjördæmi landsins.

Hv. þm. Dala. (B. J.) sagði, að pólitískir flokkar væru svo margir hjer í Reykjavík, að þess vegna mættu þm. ekki vera færri en 6. En því má ekki eins vænta margbrotinnar pólitískrar flokkaskiftingar úti um land? (B. J.: Það voru atvinnuflokkar, sem jeg talaði um, en ekki pólitískir flokkar). Jæja, það er nú samt hægt að búa til fleiri pólitíska flokka en atvinnuflokka. Og í þessu efni held jeg að rjettur Reykjavíkur verði að engu fyrir borð borinn.

Hv. þm. (B. J.) talaði um, að nauðsynlegt væri, að hver atvinnuvegur hjeldi sínum rjetti og að jafnvægi væri á milli þeirra. En mjer finst brtt. hans ekki benda á rjetta leið, enda ekki skapa fult rjettlæti.

Hann talaði um, að það gerði ekkert til, þótt Suður-Þingeyjarsýsla hefði ekki nema einn þingmann, því að þar stunduðu allir sama atvinnuveg. Með sama rjetti ætti þá að taka einn þm. af Árnessýslu, ef Stokkseyri og Eyrarbakki fengju sjerstakan þm. Og ef fylgja ætti þeirri reglu hans, að sama væri, þótt Suður-Þingeyjarsýsla hefði að eins einn þingmann, sökum þess, að þar sjeu því nær allir kjósendur bændur, þá ætti ekki að vera nema einn þm. fyrir hversu stórt landbúnaðarhjerað sem væri. En kjósendatalan hlýtur hjer að vera sá rjetti mælikvarði.

Hvað viðvíkur því, að sjávarútvegurinn sje hafður út undan, vil jeg segja það, að jeg álít, að um höfuðatvinnuvegi landsins beri að ræða og fara með af þekkingu, en ekki eftir flokkadráttum.

Hv. þm. (B. J.) taldi það lítið verk að endurskoða kjördæmaskipunina, og jeg skal ekki fara mikið út í það, en að eins geta þess, að jeg hygg, að ný kjördæmaskipun muni vera nokkuð viðfangserfitt verk, en hygg þó, að þess muni ekki langt að bíða, að ný kjördæmaskipun verði sett, og álít jeg meðal annars af því þessar brtt. ótímabærar og ekki koma þessu frv. í sjálfu sjer við.

Hv. 2. þm. Reykv. (Jak. M.) taldi það aðallega mæla með fjölgun þingmanna Reykjavíkur, að atvinnuvegirnir væru margir, og að langmest skattabyrðin væri borin af íbúum Reykjavíkur. En þótt atvinnuvegir Reykjavíkurbúa sjeu margir, er ekki hægt að búast við, að þeir komi allir til greina þar, frekar en úti um land, því að þar eru, eins og kunnugt er, í hverju kjördæmi fleiri atvinnuvegir en þingfulltrúar. Og um það, að Reykjavík beri mestar skattabyrðar og ætti því að hafa fleiri þingmenn, er þess, að geta, að jeg hefi aldrei heyrt það fyrri, að þingmannafjöldinn ætti að fara eftir ríkidæmi kjósendanna.

Í þessu sambandi vil jeg minna á það, hvernig kosið er til sýslu- og hreppsnefnda úti um land. Þar er, eins og kunnugt er, einn hreppurinn öðrum íbúafleiri, en aldrei heyrist kvartað um, að það sje misrjetti, að einn sitji í sýslunefnd fyrir hvern hrepp, enda þótt hreppsbúatalan sje misjöfn.

Um það geta verið skiftar skoðanir, hvort Reykjavík eigi svo marga þinghæfari menn en kjördæmin úti um land; og út af því, sem hv. þm. (Jak. M.) sagði, að þm. kjördæma úti um land, sem ættu heima í Reykjavík, hugsuðu að eins um hag sinna eigin kjördæma, verð jeg að segja það, að sjerhver hlýtur að gæta hagsmuna þess hjeraðs, sem hann er búsettur í, enda þótt hann jafnvel sje þm. fyrir annað kjördæmi.