20.02.1920
Neðri deild: 8. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 99 í B-deild Alþingistíðinda. (148)

8. mál, þingmannakosning í Reykjavík

Pjetur Jónsson:

Af því að jeg hefi að undanförnu látið það hiklaust í ljós, að mjer þætti það ekki rjett, að Reykjavík hefði einungis 2 þingmenn, og jeg teldi það ranglæti, að vilja eigi bæta úr því, þá vil jeg nú, einmitt þegar þingmannafjölgun Reykjavíkur er á ferðinni, gera grein fyrir atkvæði mínu í málinu.

Frumvarp stjórnarinnar er einungis leiðrjetting fyrir Reykjavík, og þess vegna einungis bráðabirgðalagfæring á kjördæmaskiftingu landins. En nú eru fleiri kjördæmi, sem á svipaðan hátt eru vanhaldin að þingmannatölu og Reykjavík, þótt í minna mæli sje. Og meðan svo stendur vil jeg ekki fjölga þingmönnum til fulls eftir kjósendatölu, heldur einungis um 2. Það er full ástæða til, strax er tækifæri fæst, að breyta kjördæmaskiftingunni í heild sinni, svo að hún sje nokkurn veginn rjettlát, því ýms kjördæmi eru afskift og óánægð. Vil jeg, að Reykjavík haldi áfram að vera í tölu þeirra kjördæma þangað til, því hún mun reka á eftir. Og með 4 þm. er hún orðin eins vel sett og sum önnur kjördæmi, ef miðað er við kjósendatölu. Mun jeg því greiða atkvæði með brtt. nefndarinnar.

Rjettlátri lagfæringu á kjördæmaskiftingu hygg jeg tæplega verði á komið, nema með því að skifta landinu í stærri kjördæmi, með 5–6 þm. í hverju, og hafa svo hlutfallskosningu. Þetta hefir komið alloft til orða, og Hannes Hafstein flutti frv. um þetta á Alþingi í sinni ráðherratíð. Tel jeg það frv. bestu till., sem fram hefir komið.

Það er nokkurt álitamál, hvort hinn eini rjettláti grundvöllur kjördæmaskiftingar sje kjósendatalan, eins og stjórnin heldur fram. Aðrar kringumstæður koma líka til greina. Og með smákjördæmum, eða einmenningskjördæmum, sem líklegra væri heppilegra að hafa en fyrirkomulagið sem nú er, verður nákvæm skifting eftir kjósendafjölda óframkvæmanleg. — Af þessu hefir líka leitt, að strjálbygðari kjördæmin og útúrskotnari hafa færri kjósendur fyrir hvern þingmann heldur en hin. Það eru því hin þjettbygðari kjördæmi, og þar fyrst og fremst Reykjavík, sem að kjósendatölu hafa eins og hlaupið undir bagga með hinum strjálbygðari. Verði nú Reykjavík tekin úr þeirra tölu, verður skakkafallið þeim mun stærra fyrir hin kjördæmin, sem hlut eiga að máli. Skal jeg taka til dæmis mitt eigið kjördæmi, sem er fjölmennast að kjósendatölu fyrir sinn þingmann, þegar Reykjavík er frá skilin.

Nú hefir Suður-Þingeyjarsýsla þó atkvæðis á þingi, en ef fjölgað er um 4 þingmenn, þá einungis 1/44. Þannig versnar skakkafallið þar við það „rjettlæti“, sem stjórnarfrv. fer fram á fyrir Reykjavík. Þess vegna vil jeg, að Reykjavík láti sjer nægja 2 þingmenn í viðbót að svo komnu, því þá standa þeir jafnt að þingmannatölu móts við kjósendur eins og Suður-Þingeyingar. Þetta á að eins að vera til bráðabirgða hvort sem er.