23.02.1920
Neðri deild: 10. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 110 í B-deild Alþingistíðinda. (157)

8. mál, þingmannakosning í Reykjavík

Sveinn Ólafsson:

Jeg hefi leyft mjer að koma með brtt. á þgskj. 71, um frestun á framkvæmd þessara laga til þess er almennar kosningar fara næst fram. Þetta er gert með það fyrir augum, að aukakosningin, sem hjer er áformuð, rugli eigi þá skipun, sem verið er að reyna að festa í þinginu, um mál og stjórnarmyndun. Mjer virðist ekkert liggja á að flýta svo mjög framkvæmd á þessu. Jeg er enn þá sömu skoðunar sem jeg var við 2. umr. þessa máls, að Reykjavík fari á engan hátt varhluta af þátttöku í þingstarfinu meðan á þingi sitja 15 þm. búsettir hjer, af 40 þm., og meðan þingið er háð hjer innan vjebanda Reykjavíkur. Jeg lít svo á, að með kosningu 2 fulltrúa í viðbót við þá, sem nú eru hjer, takist ekki að ná því marki, sem stefnt er að við hlutfallskosningu, að veita fámennari flokknum hlutdeild í löggjafar- og stjórnarstarfinu, heldur verði hún að eins til að stækka það djúp, sem nú er á milli flokkanna, verði hrein og bein meiri hluta kosning, eins og sú síðasta, en það væri að bæta gráu ofan á svart, og það virðist mjer í alla staði óheilbrigt.

Alt öðru máli er að gegna, hefði átt að kjósa alla í senn. Þá hefði mátt búast við því, að sá minni hluti, sem var við síðustu kosningar, hefði fengið að njóta sín, og að því stefnir brtt. mín. Hvort sem margir eða fáir verða henni fylgjandi, þá er hún eina leiðin að því, að skipa þessu máli sanngjarnlega, nema núverandi þm.

Reykjavíkur legðu niður umboð sín þegar, svo allir 4 yrðu jafnsnemma kosnir.

Jeg hefi áður haldið því fram, að í þessu máli sem öðrum, er Reykjavík snerta, gæti eigi lítið áhrifa bæjarins á þingið. Þetta virðist mjer augljósast af því, hve margir hafa hjer ljeð frv. stuðning að þessu sinni. 1917 var strokkhljóðið annað. Þá var hjer borin fram till. til þingsályktunar um þingmannafjölgun fyrir Reykjavík, og munu að eins 2 þm. hafa greitt henni atkvæði. Rjettlætiskrafan um þá jafngild og nú, en minna búið að róa.

Að lokum nokkur orð til svars skeytum þeim eða hnútum, sem til mín var beint við 2. umr. þessa máls af aðaltalsmönnum þess, þm. Reykv. Jeg get þó að mestu slept að vara háttv. 1. þm. Reykv. (Sv. B.). Hann var að finna að öfugmælum hjá mjer, sem hann svo nefndi, og breiða yfir mismæli sín um þekkingarskilyrðin fyrir kosningarrjetti, sem Reykjavík mundi fullnægja öðrum betur, en hann fór svo prúðmannlega með þessi skeyti, að jeg nenni ekki að svara þeim frekar. Dálítið öðru máli var að gegna um háttv. 2. þm. Reykv. (Jak. M.). Jeg heyrði að vísu óglögt til hans, en andinn var auðþektur, og eigi sjerstaklega vingjarnlegur. Háttv. þm. (Jak. M.) þóttist vera að ganga eftir loforði hjá mjer um stuðning við frv., og átti víst í þessu að liggja mjög djúpsæ skýring á orðum mínum, sem jeg hirði eigi að kljást við. En það stendur stöðugt, sem jeg þá tók fram, að þegar búið er að flytja Alþingi burtu úr Reykjavík og undan áhrifum hennar, og þegar enn fremur er búið að lögfesta það, að kjördæmakosnir þingmenn skuli búsettir í kjördæmum sínum, — þá stendur eigi á mjer að styðja að hlutfallslegri þingmannafjölgun fyrir Reykjavík.

Þá var háttv. 3. þm. Reykv., sem líka er nefndur þm. Dala. (B. J.), að sneiða að mjer fyrir samband við forkólfa verkamanna og verkfallsmanna. Þetta virðist býsna óskylt efninu, en hann er oft fremur laus við það, enda eigi sjálfur laus við ill álög. Þessi háttv. þm. (B. J.) var eindregið á móti fjölgun þingmanna fyrir Reykjavík 1917, en nú gaddharður með henni. Í því held jeg að gæti áhrifanna, sem þingmenn búsettir í Reykjavík verða fyrir, svo jeg þó nefni þess eitt dæmi, og svona eru hin illu örlög.