10.02.1920
Sameinað þing: 1. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 22 í B-deild Alþingistíðinda. (16)

Rannsókn kjörbréfa

Gísli Sveinsson:

Jeg skal fyrst geta þess, að Jakob Möller er þingmaður þar til kosning hans er feld, og ber því að skoða hann og nefna sem slíkan, en hvorki sem þingmannsefni eða annað þess háttar.

Jeg vil benda hv. frsm. (E. E.) og allri kjördeildinni á, að áður en þeir tóku ákvörðun um að bera fram þessa frestunartill., virðast þeir ekki hafa lesið þá grein þingskapanna, sem hjer á við. 5. gr. segir, að fresta megi ákvörðun um gildi kosninga, ef afla þurfi skýrslna, en annars ekki. Nú hefir það ekki komið fram, að afla eigi skýrslna, ekki einu sinni að þess þurfi. Það hefir rjettilega verið tekið fram, að málið er ofuraugljóst, að hægt er að gera sjer grein fyrir því á svipstundu. Kæran er augljós, og hana vefengir enginn. Hún segir, að um 20 menn — það upplýstist, að þeir voru 14 til 15 — hafi kosið án þess að uppfylla skilyrði laganna um vissan aldur. Þetta voru kjósendur með athugasemd á kjörskrá, en hún er talin að hafa verið ógreinileg, illa innbundin og í ólagi að fleiru, og er því kjörstjórn vorkunn. Hvað kröfuna í kærunni áhrærir, þá fer hún fram á, að kosning hv. 2. þm. Reykv. (Jak. M.) verði feld, en ekki öll kosningin í Reykjavík. Það er ljóst, að kærendur vilja ekki fella alla kosninguna, en að formi til er sami galli á kosningu 1. og 2. þm. Reykv., og er því formsatriðið kærendunum ekkert atriði.

Ef hv. 2. þm. (Jak. M.) hefði haft t. d. um 1800 atkv. og keppinauturinn sín 1400, þá hefðu þeir því ekki kært, þótt formsatriðið sje það sama og kosningin jafnólögleg.

Nei, það, sem hjer liggur á bak við, er efni málsins, það er það, að keppinauturinn ef til vill, segja menn, hefði komist að, ef þessir 14 menn hefðu ekki kosið, — það er að segja, ef gert er ráð fyrir, að þeir hafi allir eða flestir kosið hv. 2. þm. Reykv. (Jak. M.). Það er því efnisatriði, sem hjer er verið að halda til streitu, og er það síst furða, þegar að kærunni standa öruggustu og ef til vill ófyrirleitnustu fylgismenn þess frambjóðanda, sem flest hafði atkv. af þeim, sem ekki náðu kosningu. Það er því best að tala um efni málsins, því undir því er mest komið. Það er vitanlega kært í því trausti, að hæstv. forsætisráðherra (J. M.) mundi hafa komist að, ef ekki hefðu þessir 14 kosið, og mundi komast að, ef kosið væri að nýju.

Um það fyrra vil jeg ekki dæma. Um það síðara veit jeg það, að Reykvíkingum þótti vafasamt í haust, að hæstv. forsætisráðherra (J. M.) næði hjer kosningu, svo sem raun gaf vitni, og ekki mun þeim þykja það síður vafasamt hjer eftir. Nýjar kosningar mundu ekki breyta til, og þeir, sem leggja aðaláhersluna á efnisatriðið, á það að fá annan þingmann, þeir verða litlu nær, þótt þeim takist að ógilda kosningu hv. 2. þm. Reykv. (Jak. M.).

Það hefir verið talað um að fresta þessu máli. Jeg hefi bent á, að það er ekki hægt. Frestun er brot á þingsköpunum, nema skýrslna þurfi. Það eru líka önnur rök, sem mæla á móti frestun. Það væri með öllu óforsvaranlegt að draga þetta mál á langinn. Það er engin meining í að fresta slíku. Ef úrskurða á, þá verður að gera það þegar í stað, en hitt er víst, að úrskurður getur ekki rjettilega fallið eins og kæran fer fram á. Það er ekki löglega rjett að bera fram kæru um að ógilda kosninguna að parti, því eins og tekið hefir verið fram, þá er kosningin ólögleg öll, ef nokkuð er ólöglegt á annað borð.

Hv. þm. Seyðf. (Jóh. Jóh.) vildi bera fram, að fresta ætti úrskurðinum vegna vafaseðla. Yfir þeim hefir ekki verið kært. Allir aðiljar hafa sætt sig við úrskurð yfirkjörstjórnar. Það er því algerlega út í hött að fara fram á frestun þess vegna, enda hefir yfirkjörstjórn síðasta orðið í því efni.

Hv. frsm. (E. E.) talaði um það, að kosning yrði ógild, ef brugðið væn út af því, sem lögboðið væri. Jeg býst ekki við því, að þær kosningar fari fram hjer á landi, sem ekki verður eitthvað að fundið, en oftast er það svo smávægilegt, að slíkt er varla átalið, hvað þá heldur að það varði ógildingu. Jeg get nefnt það sem dæmi, að lögboðið er að tvíbrjóta kosningaseðla, en venjan er, að kjörstjórn ákveður upp á eindæmi, hvað gera skuli við aðra seðla, og er ekkert við því að segja. Það getur ekki verið tilætlun löggjafans að ónýta kosningar fyrir svo litlar sakir. Hitt er ástæða að brýna fyrir kjörstjórnum, að fara eftir settum reglum, til þess að forðast óþarfa mas og málæði á þingi um kosningarnar. Háttv. frsm. (E. E.) talaði um að koma ábyrgð á hendur kjörstjórnum, og finst mjer þetta satt að segja of lítilfjörlegt atriði til þess. (E. E.: Þetta er rangt haft eftir). Mjer skildist það svo. En hvernig sem menn vilja hafa það, þá er það þessu máli algerlega óháð, og því engin frestun nauðsynleg þess vegna.

Af þeim ástæðum, sem jeg hefi nú talið, get jeg ekki aðhylst till. 1. kjördeildar um að fresta úrskurði þessa máls, og ef önnur till. kemur fram, um það að ógilda kosningu háttv. 2. þm. Reykv. (Jak. M.), þá get jeg heldur ekki fallist á hana; til þess eru gallarnir á kosningunni, að mínu áliti, alt of lítilfjörlegir, en ef verulegir væru, þá ætti það að varða alla kosninguna.