23.02.1920
Neðri deild: 10. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 118 í B-deild Alþingistíðinda. (165)

8. mál, þingmannakosning í Reykjavík

Eiríkur Einarsson:

Jeg vil með fáum orðum gera grein fyrir atkvæði mínu. Mjer finst, að rjettast væri að fella frv. þetta, eins og það er nú fram komið, og láta þingmannafjölgunina í Reykjavík verða samferða gagngerðri endurskoðun kosningalaga og kjördæmaskipunar landsins alls, sem full ástæða er til að hraða sem mest, en eigi er unt að koma í framkvæmd að þessu sinni. Hvers vegna að taka Reykvíkinga hjer eina út úr heildinni? Ósamræmi núgildandi laga um kjördæmaskipun er tilfinnanlegt fyrir fleiri en þá. Má þar til nefna fyrst og fremst Árnessýslu, sem eigi liggur síður á að fá

leiðrjettingu mála sinna í þessum efnum en Reykvíkingum. Verður í því sambandi að taka til greina, hver þjóðarstórvirki eiga að framkvæmast þar í austursveitum nú á nálægum tíma, ef alt fer með feldu, og á jeg þar fyrst og fremst við starfrækslu fossanna, stórbúnað og fólksfjölgun, sem maður hlýtur að vænta þar, ef nokkursstaðar á landinu. Þessi almenna endurskoðun kosningalaga og kjördæmaskipunar er eigi þesskonar Grettistak, að Alþingi fái ekki valdið því, nema því að eins, að fyrst sje búið að fjölga þingmönnum fyrir Reykvíkinga um eina 2 eða 4. Óþarft fyrir aðra, sem eiga, ekki síður en Reykvíkingar, sanngirniskröfu á þingmannafjölgun, að vera að sækjast eftir eftirkaupum við þá um fleiri fulltrúa. Best að veitast þar að málum sameiginlega til sameiginlegrar leiðrjettingar strax á næsta reglulega Alþingi, en ekki að vera að taka sig út úr núna.