23.02.1920
Neðri deild: 10. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 119 í B-deild Alþingistíðinda. (166)

8. mál, þingmannakosning í Reykjavík

Gunnar Sigurðsson:

Það var að eins örstutt athugasemdt Hv. 2. þm. Reykv. (Jak. M.) þótti það undarlegt, að jeg skyldi vera á móti þessu máli nú, en ástæðan er sú, eins og jeg reyndar hefi tekið fram áður, að jeg álít, að ef þetta frv. fer í gegn á þessu þingi, þá verði það til þess að seinka fyrir almennri breytingu á kjördæmaskiftingunni.

Þar sem hv. þm. (Jak. M.) gaf það í skyn, að mjer gengi hlutdrægni til um þetta mál, þá fellur það um sjálft sig, ef menn athuga það, að fái Reykjavík 5–6 þm., eins og þm. Reykv. halda eðlilega fram, en engin breyting verði á öðrum kjördæmum landsins, þá er það beint ranglæti við önnur kjördæmi, er rjett eiga á fjölgun eftir sama hlutfalli.

Hvað snertir tillit til verkamanna, þá álít jeg vafasamt, hvort þeir koma nokkrum að með þessu móti, en það er leitt, ef jafnfjölmennur flokkur sem verkamenn eru nú orðnir hjer á landi fá engan fulltrúa inn á þing. Rjettlátast og sanngjarnast er það tvímælalaust að láta eitt yfir alla ganga um kjördæmaskipunina, og breyta henni sem fyrst.