23.02.1920
Neðri deild: 10. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 120 í B-deild Alþingistíðinda. (167)

8. mál, þingmannakosning í Reykjavík

Sveinn Björnsson:

Háttv. 1. þm. Árn. (E. E.) gerði grein fyrir atkvæði sínu, en hann var ekki á fundi þegar þetta mál var til 2. umr. Þar voru ástæður þær, sem hann kom með, útræddar.

Hins vegar finst mjer ekki rjett að draga þingmannafjölgun Reykjavíkur upp á spádóma, sem má ske hafa við lítið að styðjast. Jeg held, að ekkert samhengi þurfi að vera á milli væntanlegrar breytingar alment á kjörskipun og þessa frv. Það er hægt að fjölga þm. hjer án þess að kjördæmaskiftingin raskist nokkuð.

Jeg hygg það ekki vera rjett, að menn hjer í Reykjavík sjeu mjög óánægðir með að fá að eins 4 þingmenn; en annars snertir það ekki skoðun mína, því þingmenn eru ekki ætíð skyldir að fara að vilja kjósendanna, heldur eftir sannfæringu sinni.

Hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) færði fram 2 ástæður gegn frv. þessu. Önnur var stórpólitísk og þess efnis, að þetta myndi trufla þá stjórnar- og þingskipun, sem nú væri verið að festa.

Jeg á bágt með að trúa því, að hæstv. forsætisráðh. (J. M.), sem hefir nú lagt fram þetta frv., hefði lagt til, að það gengi strax í gildi, ef hann hefði sjeð nokkra hættu á, að þing- og stjórnarskipun mundi raskast.

Hin minni pólitíska ástæðan er, að minni hluti kjósenda hjer í bænum væri beittur ranglæti, ef þetta gengi fram nú. En jeg hygg, að það sje augljóst, að sá minni hluti yrði ekki betur settur, þótt fjölgun þm. yrði dregin fram að næstu reglulegum kosningum. Verkamenn fá ekkert frekar sinn fulltrúa inn með því móti að fresta öllu, nema síður sje.

Jeg óska þess, að nú verði eftir þessa miklu umr. bundinn endir á þetta mál, og vona því, að brtt. verði ekki samþykt.