23.02.1920
Neðri deild: 10. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 121 í B-deild Alþingistíðinda. (170)

8. mál, þingmannakosning í Reykjavík

Jakob Möller:

Mjer kemur á óvart samblástur sá, sem nú virðist hafinn á móti þessu máli, nú við lok 3. umr. þess. Háttv. þm. standa upp hver af öðrum og lýsa því yfir, að þeir vilji drepa frv. Mjer finst hv. þm. nokkuð seinir að finna til misrjettisins, sem þeir nú tala svo mikið um.

Jeg benti á það við 2. umr., að ef fjölgunin yrði ekki meiri en nú er ráðgert, þá væri óvíst, að minni hlutinn, sem fram kom við síðustu kosningar hjer í bænum, gæti komið að nokkrum þm., jafnvel við reglulegar kosningar, og þeir hv. þm., sem nú virðast bera hag þess minni hluta mest fyrir brjósti, hefðu þess vegna átt að samþykkja fjölgunina þegar í stað, eins og farið var fram á í stjórnarfrv. En þá fundu þeir ekkert til misrjettis, en rjettlætistilfinning þeirra hefir ef til vill skerpst þessa daga, sem síðan eru liðnir, og blossar nú svo upp, að þeir vilja helst bana frv., til að fyrirbyggja ranglæti! Hún er alleinkennileg, framkoma þessara hv. þm. Fyrst eru þeir mótfallnir stjórnarfrv., af því að fjölgunin sje þar sett of mikil, en þegar þeir hafa komið því til leiðar, að þingmannatalan var lækkuð, þá eru þeir alveg andvígir frv., af því að nú sje fjölgunin ekki nægileg! Jeg vona, að þeir hv. þm., sem talað hafa í þessa átt, verði einir um slíka framkomu, því jeg tel hana óheiðarlega og ósæmilega, og ástæður þeirra fyrirslátt og ekkert annað.

Kjördæmaskipunin í heild kemur þessu máli ekkert við, en þó vona jeg, að menn sjái, að fjölgun þingmanna í Reykjavík hlýtur að flýta fyrir bótum í öðrum kjördæmum. Reykjavík er hagur að því, að kjördæmaskipunin sje rjettlát, og betra er að hafa 4 atkv. á þingi en 2, til þess að fá rjettlætinu fullnægt, og auk þess ýtir bótin, sem Reykjavík hefði þá fengið, undir þingið um að unna öðrum kjördæmum sama rjettar.