23.02.1920
Neðri deild: 10. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 122 í B-deild Alþingistíðinda. (171)

8. mál, þingmannakosning í Reykjavík

Eiríkur Einarsson:

Mjer þótti háttv. 2. þm. Reykv. (Jak. M.) taka óþarflega hvast í málabjölluna, þó að við hefðum orðið til að andmæla þessu frv. Við viðurkennum, að Reykjavík hefir fullan rjett til þessarar fjölgunar, ef rjettlátleg þingmannafjölgun ætti sjer stað einnig annarsstaðar. En við álítum, að það sje ekki eins aðkallandi fyrir Reykjavík út af fyrir sig og haldið hefir verið fram af þeim, er fylgja frv. Þegar bætt er úr á einum stað, þá verður að athuga kjördæmaskipunma í heild. Það þýðir ekki að berja það blákalt fram, að þetta tvent eigi ekki saman. Svo er og á það að líta, að það er fleira en talan ein, sem þarf breytingar við. Það er svo margt í kosningalögunum, sem athuga þarf; þar er margt svo loðið og óskýrt, að nauðsynlegt er að draga skarpar línur.

Háttv. þm. Dala. (B. J.) sýndi fram á, hvar þörfin væri mest, og benti hann á, að bæta þyrfti við þingmanni austanfjalls, og svo mun öllum finnast, er athuga það mál með nokkurri sanngirni, að eigi yfirleitt við að fjölga þingmönnum, þá verði Suðurlandsundirlendið efst á baugi.

Það er talað um, að Reykjavík þurfi að hafa nægilega marga fulltrúa þegar fossamálin koma til meðferðar, og er það rjett. En því verður ekki neitað, að Árnesingar þurfa engu síður að eiga þar fult atkv., því þeir eiga mest undir því, hvort þeim málum reiðir sómasamlega af eða ekki. Það er því í alla staði heppilegt, að málið verði tekið fyrir í heild, enda er allur selflutningur óviðkunnanlegur, þegar hann gerist ekki nauðsynlegur.

Háttv. 2. þm. Reykv. (Jak. M.) lagði þungan dóm á okkur, sem andmælum frv., án þess þó að geta sýnt fram á, að ástæður okkar hefðu ekki við rök að styðjast, og get jeg ekki tekið mjer það nærri, meðan hann getur að engu leyti hnekt ástæðum þeim, er við höfum fram að færa.