23.02.1920
Neðri deild: 10. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 123 í B-deild Alþingistíðinda. (172)

8. mál, þingmannakosning í Reykjavík

Frsm. (Þórarinn Jónsson):

Jeg ætla ekki að lengja umr., en jeg vil þó fara nokkrum. orðum um misskilning, sem kom fram í ræðu háttv. 1. þm. Árn. (E. E.). Hann vitnaði í háttv. þm. Dala. (B. J.) um þingmannafjölgun í Árnessýslu. En hv. þm. Dala. (B. J.) átti ekki við það, eins og hv. þm. (E. E.) skildi það. Háttv. þm. Dala. (B. J.) kom fram með till. sínar til þess að koma jafnvægi á atvinnuvegina og fulltrúa þeirra á þingi, en hann er háttv. 1. þm. Árn. (E. E.) ósammála á öðrum sviðum, og þá sjerstaklega á því, sem hv. þm. (E. E.) talaði um.

Háttv. þm. Dala. (B. J.) benti líka á það, að þingmannafjöldi ætti ekki að miðast við kjósendafjölda, og er það rjett. Kjördæmaskipun okkar er ekki bygð á kjósendafjölda, heldur hefir verið litið svo á, að hvert hjerað ætti kröfu til að hafa sjerstakan fulltrúa, hversu fáment sem það væri. Bæjarfjelögin eru hliðstæð og ættu því ekki að standa betur að vígi, en þó leit nefndin svo á, að taka bæri eitthvert tillit til þess mikla fjölda, sem í Reykjavík er, og þá væri hæfilegt, að hún hefði 4 fulltrúa.

Þó að þetta frv. yrði að lögum, þá ætti það ekki að standa í vegi fyrir því, að kjördæmaskipunin yrði endurskoðuð í heild, heldur miklu frekar að ýta undir það, eins og bent hefir verið á.