10.02.1920
Sameinað þing: 1. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 26 í B-deild Alþingistíðinda. (18)

Rannsókn kjörbréfa

Jakob Möller:

Mjer þykir ástæða til, þó að málið sje mjer skylt, og jeg tel það jafnvel skyldu mína gagnvart kjósendum mínum, að mótmæla þeirri till., sem komið hefir fram, um að fresta að úrskurða kosninguna í Reykjavík.

Eins og margtekið hefir verið fram, er málið afarljóst, og því engin ástæða til frestunar. Það, sem kært er um, er að eins það, að um 20 menn — eða nákvæmlega talið 14 — sem ekki höfðu náð fullum aldri á kosningardegi, hafi fengið að kjósa. Þetta er fullkomlega upplýst, og kemur því alls ekki til greina, að þörf sje á frestun til að afla frekari upplýsinga.

Hv. þm. Seyðf. (Jóh. Jóh.) talaði um vafaseðla þá, er fram hefðu komið. En eins og áður hefir verið tekið fram, er það ljóst, að þeir eru áhrifalausir hvað úrslit kosningarinnar snertir, og gefa því síst tilefni til frekari dráttar eða frestunar.

En þó að hjer sje að eins um smávægilega formgalla að ræða, þá skal jeg á engan hátt kvarta yfir því, þó að yfir þeim hafi verið kært, og það vissi jeg fyrir, að andstæðingar mínir myndu reyna að tjalda hverju sem til væri, til þess að hnekkja kosningunni, og vafalaust hefðu þessir svo kölluðu vafaseðlar einnig verið notaðir, ef það hefðu verið nokkur tiltök. En ekki get jeg látið hjá líða að minnast á það, að í kosningabaráttunni var af hálfu andstæðinga minna neytt ýmsra ráða, sem í mínum augum mætti miklu fremur skoðast sem ógildingarsök á kosningu heldur en þessi smávægilegi formgalli, sem hjer er um að ræða, enda má telja það víst, að hinir sömu mundu hafa litið öðrum augum á gallana, ef kosningin hefði á annan veg snúist.

Þegar jeg bauð mig fram, þá var þar á móti miklu stærri og sterkari flokkur en búist var við að mjer mundi vera fylgjandi, og sá flokkur hafði tækifæri til þess að búa sig mun betur undir kosninguna; hann hafði nákvæmt eftirlit með kosningarathöfninni sjálfri, t. d. tvo eftirlitsmenn í hverri kjördeild, sem áttu að sjá um, að kosningin færi að öllu löglega fram, og mætti því líta svo á, að flokkurinn megi sjálfum sjer um kenna þá galla, sem á hafa orðið. En því kynlegra má það samt virðast, að nú kærir hann fyrir þessa lítilfjörlegu formgalla, og þeir, sem kæra, eru einmitt þeir mennirnir sjálfir, sem ljetu fremja gallana.

Jeg get lýst því hjer yfir, að jeg tek mjer það ljett, hvort kosningin verður ógilt eða ekki, en hinu verð jeg að mótmæla, sem hreinu ofbeldi, að fresta úrskurðinum og útiloka þannig báða þingmenn stærsta kjördæmisins frá því að taka þátt í störfum þingsins um óákveðinn tíma.