26.02.1920
Efri deild: 13. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 126 í B-deild Alþingistíðinda. (184)

8. mál, þingmannakosning í Reykjavík

Jóhannes Jóhannesson:

Meiri hluti stjórnarskrárnefndar hefir komið fram með brtt. um að fjölga þingmannatölu Reykjavíkur um einn fram yfir það, er háttv. Nd. lagði til. Það hefir verið sýnt fram á það í hv. Nd. með óhrekjanlegum rökum, að Reykjavík á fulla kröfu til 6 þingmanna. Þó hefir sú hv. deild ekki viljað veita henni meira en 4. En stjórnarskrárnefnd væntir þess, að hv. Ed. sýni Reykjavík þá sanngirni, og fullnægi að svo miklu leyti rjettarkröfum hennar, að fjölga þingmönnum upp í 5. Jeg ber það traust til hv. Nd., að hún muni þá einnig slaka til, ef breyting þessi yrði samþykt í þessari hv. deild.

Í gærkvöldi var haldinn fjölmennur borgarafundur hjer í bænum, og þar var samþ. að halda fast við kröfuna um 6 þm.

Enda þótt nefndin fallist á, að Reykjavík eigi kröfu til 6 þm., vill hún þó til samkomulags við Nd. takmarka töluna við 5. Ef þetta þing gengur svo fram hjá kröfum Reykjavíkur, að hún fái ekki nema 4 þm., þá mega menn vera vissir um, að strax á næsta þingi verður krafan um 6 þm. aftur borin fram. En fái hún 5 þingmenn nú, er líklegt, að hún láti sjer það nægja þangað til kjördæmaskiftingin hefir verið athuguð og endurbætt í heild sinni. Jeg vil ekki vekja deilur um þetta mál; það er ekki siður hjer í deildinni að deila um málin, heldur ræða þau með rökum.