26.02.1920
Efri deild: 13. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 127 í B-deild Alþingistíðinda. (185)

8. mál, þingmannakosning í Reykjavík

Frsm. (Guðmundur Ólafsson):

Jeg kann ekki við annað en segja fáein orð í þessu máli. Jeg var meðmæltur frv. þessu, en nú er komið fram álit meiri hluta stjórnarskrárnefndar, sem vill breyta því. Jeg verð að segja, að ræða háttv. þm Seyðf. (Jóh. Jóh.) hljómaði vel, og ekki er mikið fyrir Reykjavík, þó hún fái 5 þm. En jeg held, að þó að Reykjavík fái þessu framgengt, þá hætti hún engu að síður við að krefjast 6 þingmanna. Jeg hugsa, að það komi í ljós, að það var ekki að öllu leyti út í loftið, sem nefndin lagði til í Nd. Mjer skildist af ræðu háttv. þm. Seyðf. (Jóh. Jóh.), að hann byggist við, að háttv. Nd. myndi slaka til, en það tel jeg þó ekki víst, þar sem 20 voru á móti. Það er meiri virðing en jeg get vonast til að hún sýni háttv. Ed. Ef slakað er til nú, koma aðrir á næsta þingi og heimta fjölgun þingmanna hjá sjer. Og þó reynt væri að gera öllum jafnt undir höfði í þessu efni, þá gæti þó svo farið, að þingið sprengdi utan af sjer húsið áður en allir yrðu ánægðir. Jeg er alls ekki á móti því, að Reykjavík fái 5 þingmenn, ef það væri ekki svo athugavert frá því sjónarmiði, sem jeg hefi nú bent á, að fleiri kjördæmi kæmu á eftir. Það yrði 1 kjördæmi fyrir ofan með þingmannatölu, og þrjú lítið eitt fyrir neðan. Jeg tel þetta varhugavert. Á endanum yrðu þingmenn helmingi fleiri en þörf er á.

Jeg þarf svo ekki að segja meira. Hv. þm. sjá, af hvaða ástæðu jeg get ekki verið með brtt.