28.02.1920
Neðri deild: 18. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 129 í B-deild Alþingistíðinda. (189)

8. mál, þingmannakosning í Reykjavík

Frsm. (Þórarinn Jónsson):

Þetta frv. fór hjeðan úr deildinni yfirlætislaust og óbrotið, og fór fram á 4 þingmenn fyrir Reykjavík. En háttv. Ed. hefir nú bætt við 5. þingmannsefninu, og er enginn þess dulinn, að áhrifa Reykvíkinga hefir gætt þar, og er það sönnun fyrir því, sem jeg og aðrir hjeldu fram um það efni, er málið var rætt hjer í deildinni um daginn. Bæjarbúar hafa sent sendinefnd á fund þingsins, og hefir niðurstaðan orðið sú, að háttv. Ed. hefir fært tölu þm. Reykjavíkur upp í 5, en jeg vil ekkert um það segja, hve mikinn þátt sendinefndin hefir átt í því. En háttv. Ed. hefir gert þetta að nokkru leyti í eiginhagsmuna skyni, því hún ætlaði sjer þann, sem við bættist, og hún hefir verið svo áköf, að hún hefir ekki hlíft stjórnarskránni, því þar stendur, að 8 menn skuli kosnir úr sameinuðu þingi til Ed. Háttv. þm. Mýra (P. Þ.) hefir viljað bjarga stjórnarskránni, en hann hefir með því gert háttv. Ed. ógreiða, því hann vill, að maðurinn nýi bætist við þessa deild.

Jeg ætla ekki að fara út í málið sjálft. Það hefir verið rætt svo hjer áður, að frekari umr. verða að eins endurtekningar. Jeg held enn þá við þær ástæður, sem jeg hefi flutt fram í þessu máli, og sama er um meiri hluta nefndarinnar að segja. Hann hefir leyft sjer að koma með brtt. á þgskj. 156, þess efnis að setja frv. í sama form og áður. Jeg vona, að þeir, sem greiddu atkvæði með því síðast, verði einnig til þess nú, en annars má marka áhrif Reykvíkinga á atkvæðagreiðslunni, því hún var ljós síðast, og ný rök hafa ekki komið fram, sem hefðu getað breytt skoðunum háttv. þm.