28.02.1920
Neðri deild: 18. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 137 í B-deild Alþingistíðinda. (193)

8. mál, þingmannakosning í Reykjavík

Pjetur Þórðarson:

Jeg skal ekki fara út í þá sálma, hvort Reykjavík á meiri eða minni rjett til þingmannafjölgunar, en hitt er víst, að mikill meiri hluti þingmanna vill, að þingmönnunum verði fjölgað. Hitt er ágreiningsefni, hversu mörgum þingmönnum á að bæta við. Og það kom fram í deildinni um daginn, er málið var hjer til 1. umr., að margir vildu bæta við 2 þingmönnum.

Jeg minnist þess ekki að færðar hafi verið fram neinar verulegar ástæður móti því, að Reykjavík fengi 3 þingmenn í viðbót. Jeg hefi ekki heyrt á ræðum þm., að það gæti haft neinar skaðlegar afleiðingar. Jeg verð að segja það, að við getum tekið máli þessu rólega, því að það skiftir í sjálfu sjer litlu máli fyrir deildina, hvort þingmönnunum verður fjölgað um 2 eða 3. Að þessu leyti get jeg látið mjer liggja það í ljettu rúmi, hvort verður ofan á. En þó hallast jeg heldur að breytingu Ed., að því leyti, er þingmannafjölgun snertir. Aftur á móti tel jeg það koma í bág við síðustu málsgrein 26. greinar stjórnarskrárinnar að fjölga þingsætum Ed. Og að því lýtur brtt. mín á þgskj. 151., að færa þetta í lag, ef þessi hv. deild vildi bæta við 3. þm., því þá leið, að fjölga þm. Ed. um leið og þm., kosnum hlutbundnum kosningum, er fjölgað, verð jeg að álíta ósamrýmanlega áður nefndri stjórnarskrárgr. En mjer heyrist á sumum hv. þm., að þetta skifti í sjálfu sjer ekki svo miklu máli að deilandi sje um. En jeg álít, að svona beri að skoða þetta atriði, og því sje nauðsynlegt að breyta þingmannatölunni í þá átt, sem hjer er farið fram á. Þó hefði jeg heldur kosið að heyra skoðun hæstv. forsætisráðherra á þessu atriði, áður en jeg held því frekar til streitu, að breyting þessi sje nauðsynleg. Annars er þetta víst atriði, sem deila má um, hvort sem menn eru lögfræðingar eða ekki. En jeg álít nauðsynlegt að breyta þessu í þá átt, sem brtt. mín fer fram á.