28.02.1920
Neðri deild: 18. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 138 í B-deild Alþingistíðinda. (194)

8. mál, þingmannakosning í Reykjavík

Pjetur Jónsson:

Mjer líst svo á, að frv. þessu verði siglt í strand og að Reykjavík eigi bæði beinan og óbeinan þátt í því, af því að hún hefir með svo miklum ofsa fylgt því fram, að þingmannatalan fari eftir kjósendatölunni. Jeg hjelt því fram áður, að það væri ástæðulaust að fara fram á svo mikið, meðan jöfnuður kæmist ekki á í þessu efni í öðrum kjördæmum. En þó að jeg hjeldi því fram, að Reykjavík mætti vel hlíta við 4 þingmenn meðan svo stæði, þá þykir mjer engin veruleg ósanngirni í, þó þeir verði 5. Jeg vil ekki setja málið í strand og mun því geta greitt atkvæði með frv. eins og það kemur frá Ed.

Það var líka annað, sem hefir áhrif á skoðun mína í þessu máli. En það er, að jeg álít heppilegt, að höfð sje oddatalan, og sjerstaklega kemur það sjer vel, þegar kosið verður næst, því að hlutfallskosning á 2 þingmönnum nýtur sín ekki. En með oddatölunni nytu flokkarnir sín betur, og það álít jeg mikils virði.