28.02.1920
Neðri deild: 18. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 139 í B-deild Alþingistíðinda. (196)

8. mál, þingmannakosning í Reykjavík

Frsm. (Þórarinn Jónsson):

Jeg ætla að vera stuttorður, enda finst mjer þess full þörf.

Hv. 2. þm. Reykv. (Jak. M.) tók það fram, að jeg mundi hafa litið svo á, að þetta væri ekki alvara Reykvíkinga, en nú væri það fram komið, svo ekki yrði efast um það lengur. En jeg verð að segja það, að jeg hefi aldrei efast um, að svo væri; jeg hefi frá því fyrsta fundið, hve miklu kappi var beitt í málinu. Hv. þm. (Jak. M.) talaði um, að ef þetta næði fram að ganga, svo sem til væri ætlast, væri engin hætta á ferðum fyrir landið. (Jak. M.: Nei, jeg sagði, að málinu væri hætt). Það lá töluverður þungi í þessu hjá hv. þm. (Jak. M.), en ekki vil jeg samt skilja það sem hótun, þótt maður hafi fengið að heyra ýmislegt undanfarið. Þá sagði sami hv. þm. (Jak. M.), að skynsamleg rök hefðu ekki verið færð gegn því, að Reykjavík ætti ekki kröfu til 5 eða 6 þm.

Jeg tók það fram, að kjördæmaskifting landsins hefði alls ekki verið bygð á fólksfjölda í fyrstunni, hún hefði beinlínis verið bygða á hjeraðaskipun; það var sama, hvernig atvinnuvegum íbúanna var háttað, það voru settir einn eða tveir þm., álitið rjett, að lítið kjördæmi hefði einn þm., stærra kjördæmi tvo. Það er því gersamlega rangt, að engin rök hafi verið færð í þessu efni. Ef það eru ekki rök að vísa til, hvernig hagað er kjördæmaskipun á landinu, og sýna fram á, að hjer er verið að fara inn á áður óþektar brautir, sem sje að láta fólksfjölda einan ráða, þá fæ jeg ekki sjeð, hvað eru rök. Rökþrotin eru einmitt hjá hv. 2. þm. Reykv (Jak. M.), því að hann hefir ekki fært rök fyrir því, hvers vegna aðrar reglur eigi að gilda fyrir hina hluta landsins en Reykjavík. Heldur hv. þm. (Jak. M.) t. d., að það hafi verið kjósendafjöldinn á Seyðisfirði, sem olli því, að hann var gerður að sjerstöku kjördæmi? Jeg held ekki, heldur var það sú ástæða, eins og jeg hefi drepið á, að kaupstaðurinn er sjerstakt hjerað með sjerstakri hjeraðsstjórn, og þótti því sanngjarnt, að hann hefði einnig fulltrúa á þingi. Þetta nægir til að sýna rjettmæti þess, er jeg hefi haldið fram, að það er miklu fremur hjeraðsskipun en kjósendafjöldi, sem ráðið hefir kjördæmaskiftingunni. Þetta kalla jeg rök, hvað sem öðrum finst, og meðan þessi meginregla gildir hjá oss um kjördæmaskipunina vil jeg ekki fjölga þm. Reykv. meira en í 4. Ef meiri breyting á að verða á þm. höfuðstaðarins, þarf að endurskoða kjördæmaskiftinguna alstaðar á landinu.

En jeg gæti nærri trúað því, að ef fjölgað yrði þm. Reykvíkinga eins mikið og þeir hafa nú sagt sig ánægða með, myndi ekki eins flýtt endurskoðun kjördæmaskipunar, og þetta skín einnig í gegn hjá hæstv. forsætisráðh. (J. M.), og þegar jeg hefi orð hans fyrir mjer, þá verð jeg af þeirri ástæðu enn þá tregari á að ganga lengra en nefndin lagði til.

Hv. 2. þm. Reykv. (Jak. M.) talaði um, að þetta væri ofbeldisverk, en hann færði engar ástæður fyrir því hvers vegna það væri það, og þess vegna eru allar hans röksemdir einskis virði, þegar litið er á þá meginreglu, sem farið hefir verið eftir við kjördæmaskiftinguna upphaflega. Reykjavík leggur svo og svo mikið til landssjóðs, segir hv. þm. (Jak. M.). En því fer þá háttv. þm. ekki fram á, að peningamennirnir fái svo og svo mörg atkvæði yfir að ráða við þingkosningar? Og svo er sami hv. þm. (Jak. M.) í öðru orðinu að tala um öreigalýðinn; hann er held jeg, að reyna að láta öllum kjósendum þykja gott að heyra til sín. — Ef þetta verður dæmt ofbeldisverk, þá held jeg að þessi aðferð Reykvíkinga verði engu síður kölluð það, þegar þeir eru að hóta að gera eitthvað stórt og hættulegt ef þeir geti ekki látið báðar deildir þingsins í vasa sinn, þegar þeir fyrst reyna til þess.

Þá gat sami hv. þm. (Jak. M.) þess, að hinir kjördæmakosnu Reykvíkingar hefðu ekki verið með þessu áhugamáli bæjarins, og þó rjett í sömu andránni, að einn kjördæmakosinn Reykvíkingur hefði verið með því.

Því verður ekki neitað, held jeg, að Reykvíkingar hafi áhrif á þá hv. þm., sem hjer eru búsettir, og er það að vonum; þeir eru orðnir rótgrónir hjer og hagur Reykjavíkur um leið orðinn þeirra hagur, og þeir þurfa ekki að vera neitt á móti hagsmunum síns hjeraðs eða kjördæmis, þótt þeir unni Reykjavík sanngirni.

Það hefir verið talað um, að Reykjavík standi miklu betur að vígi en nokkurt annað kjördæmi, af því að þingið er háð hjer, og háttv. 1. þm. Reykv. (Sv. B.) fór líka að minnast á þetta, og af hverju? Af sanngirni býst jeg við. Eða getur nokkrum dottið í hug, að háttv. þm. (Sv. B.) hafi farið að tala um þetta af ósanngirni? (Sv. B.: Jeg var að halda fram hugsanagangi háttv. frsm. (Þór. J.)). Nei, háttv. þm. (Sv. B.) hjelt fram sínum eigin hugsanagangi. Og jeg tók það einmitt fram, að það væri sama, hvort áhrifin kæmu frá utanþingsmanni eða þm. Þessi aðstaða skiftir svo ósegjanlega miklu. En jeg er ekki með þessu að segja, að það sjeu altaf slæm áhrif, og geta þó verið skiftar skoðanir um það; t. d. sagði háttv. 1. þm. Reykv. (Sv. B.) við 1. umr. þessa máls, að það gæti hugsast, að það væru slæm áhrif.

Háttv. 1. þm. Reykv. (Sv. B.) talaði um hv. Ed. með mjög miklum lofsorðum. Jeg býst við, að það hafi verið afleiðing þess, hvernig hún tók í málið, en að það sje ekki svo, að hann myndi ávalt gefa henni slíkan vitnisburð. En jeg held, að mjer sje óhætt að fullyrða, að þar hafi verið gert alt, sem hægt var, til þess að hafa áhrif á hana, og það er að minsta kosti áreiðanlegt, að hv. Ed. hefir ekki hugsað þetta mál mjög ítarlega, en það er afsakanlegt, þegar þingtíminn er næstum því á enda, en þó er nokkuð mikið að gert, finst mjer, þegar farið er að misþyrma stjórnarskránni til að koma þessu máli fram. Jeg get ekki skilið það eftir 26. gr. stjórnarskrárinnar, að Nd. eigi nokkru sinni að kjósa nema 8 þm. til Ed., auk þeirra landsk. þm., sem eiga að sitja í Ed. (Sv. B.: Þeir eiga að vera sex). Það má breyta tölu þeirra með lögum, en það er ekki hægt að breyta tölu þeirra þm. með lögum, sem þingið kýs upp í Ed.

Háttv. 1. þm. Reykv. (Sv. B.) sagði, að rjettlætiskrafan væri að minsta kosti sex, en þó gat hann gengið inn á þessa fimm, og mjer skildist nokkuð til frambúðar. Það er gott að fá samþykki fyrir þessu, því að það er í samræmi við orð hæstv. forsætisráðherra (J. M.), um að ekki þyrfti að endurskoða fljótt kjördæmaskiftingu landsins, því þá þegði Reykjavík. Jeg vil biðja alla háttv. þm. að athuga þetta.

Háttv. 1. þm. Reykv. (Sv. B.) gat þess enn fremur, að hjer væri verið að hugsa um minsta pólitíska flokkinn í bænum, en það er vert að geta þess, að þessi misrjettur, ef hann er, á sjer ekki stað nema örskamman tíma, og þegar nú flokkarnir fylgjast að um þá „rjettlætiskröfu“, að fá einn þm. í viðbót, því geta þeir þá ekki fylgst að um það, að láta minsta flokkinn koma að einum manni?

Þá var sami háttv. þm. (Sv. B.) að tala um, að hann hefði ekkert gert til að þvinga menn á sitt mál. Jeg hefi nú altaf skoðað það svo, að enginn hv. þm. hefði nokkurn þvingunarrjett yfir mjer, en hitt er náttúrlega ekki nema eðlilegt, þótt hann hafi talað við einhverja hv. þm. um, að hann vildi koma þessu áhugamáli sínu fram, og jeg býst þá líka við, að þau sjáist við atkvgr., þessi áhrif Reykvíkinga. En þar sem þeir hafa verið að mótmæla því, að þau væru til, þá hafa þeir svo átakanlega hrakið það og sannað hið gagnstæða, að ekki þarf frekar vitnanna við.

Háttv. þm. S.-Þ. (P. J.) mintist á það, að hann vildi ekki hleypa málinu í strand, og því hefði hann gengið inn á það, sem háttv. Ed. gerði, en hjer þurfti engu að hleypa í strand. Dagurinn var nógur til þess að láta málið ganga bæði til Ed. og Sþ.

Jeg hefi þegar svarað hæstv. forsætisráðh. (J M.), að því leyti sem hann drap á þetta mál, og finn ekki ástæðu til að orðlengja þetta meira, álít líka þessar umr. þýðingarlausar, þar sem þær hljóta að vera tómar endurtekningar á því, sem sagt hefir verið um málið áður hjer í deildinni.