28.02.1920
Neðri deild: 18. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 152 í B-deild Alþingistíðinda. (201)

8. mál, þingmannakosning í Reykjavík

Bjarni Jónsson:

Það er vandi að tala þegar af kappi er rætt og erfitt að koma þá fram rjettu máli.

Jeg bar fram tillögu um endurbætur sem náðu víðar en til Reykjavíkur. En hún var ekki samþykt, líklega af því að rjettlætið hefir þar verið of mikið.

En þó að menn vildu ekki taka þennan stóra rjettlætisskamt, þá skil jeg ekki. hvers vegna þeir vilja ekki taka þennan litla skamt, sem hv. Ed. hefir úthlutað. Vildi jeg því mælast til, að þessi deild færi að tilmælum hennar og lofaði þessu máli að ganga fram, því þá mætti segja, að einu rjettu máli hefði þó verið komið fram af hv. Ed.

Hvað þær almennu ástæður snertir, sem bornar hafa verið fram, um hlutföllin á kjósendatölunni, skal jeg taka það fram, að jeg álít, að það sje ekki kjósendatalan, heldur fólksfjöldinn, sem þar á að ráða. Því að vitanlega á þingmaðurinn ekki að gæta hagsmuna kjósenda einna, heldur á hann að gæta hagsmuna allra þeirra, sem í kjördæminu búa, auk þess sem hann á að vera þingmaður alls landsins. En varla mundi það þá verða of mikið rjettlæti, þó að Reykjavík fengi 5 þingmenn,

Þá hefir mönnum orðið tíðrætt um þau áhrif, er Reykvíkingar hafi haft á þingið. Jeg skil ekki, hvað menn þurfa að kvarta undan því, þó borgarafundur hafi verið haldinn, og þó að sá fundur hafi kosið nefnd til þess að tala við þingmenn. Jeg veit ekki betur en að fjarlægir þingmálafundir geri slíkt hið sama, með því að senda erindi sín til þingsins. En ef áhrif Reykvíkinga hafa orðið of rík, þá er það síst til virðingar sagt, nje til þess að viðurkenna sjálfstæði þingmanna, því eigi gæti svo verið, nema af þeim einum sökum, að eigi eru sendir nógu sjálfstæðir menn á þing.

Jeg heyri sagt, að hv. frsm. (Þór. J.) hafi tekið mig sem dæmi, þegar hann talaði um, að heimilisfestan rjeði skoðunum. (Þór. J.: Það var ekki rjett). (Jak. M.: Jú, það var rjett). Það var ekki sem heppilegast dæmi. Því að fáir þeir, sem búa hjer, munu jafnóánægðir með heimilisfestu sína sem jeg; mjer finst, að jeg eigi hjer aldrei heima. Og sannleikurinn er, að jeg væri hjer ekki deginum lengur, ef jeg væri ekki til neyddur, ef atvinnu minni væri ekki þannig háttað, að jeg yrði að vera hjer. Fáir eru t. d. jafn óánægðir með bæjarbrag og jeg, og ber jeg þess vegna ekki neinn hlýleik til bæjarins, af því að jeg á hjer heima. En hvað málin snertir, þegar atkvæði skal greiða, þá er mjer sama, hvort það er bryggja í Húnavatnssýslu, vegur í Langadal eða þingmenn í Reykjavík. Jeg fer þar eftir því, sem jeg álít rjett, hver svo sem í hlut á, og stæði mjer þó nær að vera hliðhollur frændum sínum þar nyrðra. En eitt ræður, og það er, hvað rjett er.

Það er því ekki af hlýleik til Reykvíkinga, að jeg held því fram, að þetta sje það minsta, sem þeim verði boðið. Og nái það ekki fram að ganga nú, þá verður það á næsta þingi. Verður þá alt endurtekið, sem hjer hefir verið sagt, en með meiri ró og næði og með meira bili milli umræðna en nú hefir átt sjer stað. Hygg jeg líka, að svo hafi ekki verið til ætlast þegar kosningar fóru fram, heldur að það borgaði sig betur, að þingmenn sætu kyrrir og ynnu sín verk, svo að gagni mættu koma.

Hv. þm. Stranda. (M. P.) leit til mín þegar hann mintist á rökfima menn. Jeg er honum þakklátur. En hvað gagnar rökfimi, þó að til væri, þegar menn eru ekki komnir til þess að láta sannfærast, eins og hjer virðist eiga sjer stað. Einkum þegar ekki er spurt um, hvað rjett er, heldur um afleiðingarnar, þegar að eins er hugsað um fordæmið, að ef A er gert rjett, þá verði líka að gera B rjett, en ef það væri ekki, þá sje heldur ekki ástæða til þess að gera rjett við A. Nei, rökfimi er ekki hægt að viðhafa þegar menn eru á þessum buxunum.