28.02.1920
Neðri deild: 18. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 154 í B-deild Alþingistíðinda. (202)

8. mál, þingmannakosning í Reykjavík

Sveinn Björnsson:

Háttv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.) lýsti því yfir, að hann viðurkendi, að Reykjavík hefði fullan rjett til að fá 5 þm. eða jafnvel 6 þm. En þegar hann segir, að hann vilji ekki gera skyldu sína sem þm., með því að greiða atkv. með því, þá álít jeg, að það sje af misskilningi hjá honum, að ekki sje hægt að gera einum rjett, nema með því móti að gera öllum rjett. Jeg vona, að þegar hv. þm. fer að athuga þetta rólega, þá sjái hann villuna, sem liggur í því, að ekki sje hægt að gera einum rjett, nema maður geri öllum rjett.

Þá er það hv. þm. Stranda. (M. P.). Hann talar um þetta mál eins og sá, sem ekki hefir við rök að styðjast. Hann segir, að hann furði sig ekkert á því, þótt við þm. Reykvíkinga álítum það skyldu okkar að berjast um á hæl og hnakka fyrir þessu áhugamáli kjósenda okkar, að ræður okkar sjeu að eins kjósendaræður — jeg tel óheppilegt að brúka þetta gamla orðtæki, að halda kjósendaræður — því við hefðum svo góða aðstöðu, þar sem við hefðum sjálfa kjósendurna til þess að hlusta á okkur. Hann sagði, að við hefðum við fyrri umr. málsins borið fram öll þau rök, sem við hefðum þá haft fram að bera. En þá var pöllum lokað vegna samgöngubannsins, svo þá var þessu ekki til að dreifa. Þetta gamla agn getur stundum verið gott. en á hjer ekki heima. Sami hv þm. (M. P.) slær því einnig fram, að engin ný rök hafi komið fram í þessu máli. En eitt af aðalrökunum er það, að frv. hefir tekið breytingum í háttv. Ed., og það breytingum, sem eru á rökum bygðar, og sýnt fram á, hversu heppilegar þær sjeu. Ef það er ekki ný ástæða, að önnur deildin hefir breytt frv., þá þekki jeg ekki, hvernig gengið hefir til á Alþingi. Svo vil jeg benda á atriði, sem ekki var nefnt við síðustu umr., og var þess þá kyrfilega gætt af andstæðingum mínum, að koma ekki nálægt því að mæla á móti.

Hjer er um hlutfallskosningu að ræða, en hún nær ekki tilgangi sínum nema talan sje ójöfn. Þetta veit jeg að vegur talsvert hjá háttv. þm.

Háttv. frsm. (Þór. J.) gerði mjer þau þægindi, að fara ekki mjög mörgum orðum um hlutfallskosninguna, en það vil jeg undirstrika, að á þetta atriði mintist hann ekki.

Svo er það eitt atriði í ræðu háttv. frsm. (Þór. J.), sem jeg á ómögulegt með að skilja. Hann segir, að ef þingmannafjölguninni hjer í Reykjavík verði flýtt núna, þá muni þm. Reykv. ekki finna ástæðu til að taka fyrir nýja kjördæmaskiftingu. Hvaða ástæðu hefir hann til að halda, að við, þegar við höfum heimtað rjett fyrir vissan hluta þjóðarinnar, förum þá að berjast með hnúum og hnefum á móti rjetti annara? Jeg vil ekki liggja undir slíkum ásökunum. Kosningarjetturinn er dýrmætasti rjettur einstaklingsins, svo að hvorki Reykvíkingar nje aðrir mega fara varhluta af honum. En jeg ætla að biðja háttv. frsm. (Þór. J.) að athuga það, að hjer er ekki verið að berjast um það, hvort þingmannafjölgunin eigi að verða meiri eða minni, heldur um það, hvort það eigi að verða líkur jöfnuður með Reykjavík og öðrum kjördæmum. Þetta er sá mikilsverðasti pólitíski rjettur, sem hver frjálsborinn kjósandi á, og mætti því ætla, að hv. þm. dæmdu um það hlutdrægnislaust, með fullri sannfæringu og alvöru. Mjer finst vera of lítið tillit tekið til Ed., ef ganga á fram hjá þessari einu breytingu, sem frá henni hefir komið, og er þannig, að aðstaða þingsins breytist ekki, þó einum þm. sje bætt við.

Málið er fram komið fyrir rjettmæta kröfu Reykvíkinga. Það er stutt af stjórninni og stutt af Ed., og það er á rökum bygt, að krafan er rjettmæt. Getur þá Nd. annað en fallist á hana?