28.02.1920
Neðri deild: 18. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 156 í B-deild Alþingistíðinda. (203)

8. mál, þingmannakosning í Reykjavík

Magnús Kristjánsson:

Þegar frv. þetta var hjer síðast til umr., gat jeg ekki verið því fylgjandi. Ekki af því, að mjer þætti það of langt farið, þó Reykjavík fengi 6 þingmenn, heldur voru það aðrar ástæður. Mjer fanst það nærri frágangssök að gera ráð fyrir 4 þm., ef kjósa ætti þá í mörgu lagi. Ef það hefði orðið ofan á, þá hefði mátt telja það hefndargjöf. Jeg álít, að þá hefði verið langt frá því, að rjettlætinu hefði verið fullnægt. Þess vegna gat jeg ekki felt mig við það, eins og það þá lá fyrir. Nú er nokkru öðru máli að gegna, því breytingar þær, sem komið hafa frá Ed., bæta nokkuð úr. Þess vegna geri jeg ráð fyrir, að jafnvel þó jeg telji það ekki viðunandi, þá geti jeg þó fallist á það, eins og það nú liggur fyrir. Jeg vil enn taka það fram, hvort þm. Reykv. vildu ekki leggja niður þingmensku, því þá yrði rjettlætinu frekar fullnægt. Jeg efast ekki um, að þeir eiga vísa endurkosningu. Jeg ætla ekki að tefja með því að fara lengra út í þessa hlið málsins.

En svo er það önnur hlið málsins, sem hefir talsverða þýðingu, sem er sú, að það komi í bága við stjórnarskrána, ef frv., eins og það kom frá Ed., verður samþykt, en jeg er gagnstæðrar skoðunar, því ef það verður samþykt, þá er leystur sá vandræðahnútur, að finna rjettan skilning á 26. gr stjórnarskrárinnar. Jeg álít, að Ed. hafi komist að rjettri niðurstöðu í þessu máli, að það sje ekkert því til fyrirstöðu, að 15 þm. sjeu í Ed. Því þegar stjórnarskrármálið var hjer til umr. á síðasta þingi, þá var gert ráð fyrir því, að tölu þm. í deildunum mætti breyta með lögum, þegar tala þm. breyttist. Þá falla allar gömlu tölurnar af sjálfu sjer. Svo finn jeg ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta mál.