28.02.1920
Neðri deild: 18. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 159 í B-deild Alþingistíðinda. (205)

8. mál, þingmannakosning í Reykjavík

Einar Þorgilsson:

Það er ekki vilji minn að bæta hjer miklu við umræðurnar. Hjer er búið að tala of mikið og slá of miklum hita í báða málsparta. Jeg vil tala um þetta með ró og stillingu.

Brtt. mín við frv. til laga um þingmannakosning í Reykjavík er ekki fram komin til að mótspyrna frv., heldur sem meðstæð hliðstæða, að fá þm. fyrir Hafnarfjörð. Eins og menn vita, er það ítrekuð ósk, sem byggist á atvinnu- og staðháttum og á fjölgun kaupstaðarbúa, sem nú eru um 2000 að tölu. Með tilliti til annara kaupstaða landsins, þá sjá menn, að Hafnfirðingum ber að fá þingmann ekki síður en þeim bæjarkjördæmum, sem eru fámennari, og hafa þó fulltrúa hjer á þingi.

Brtt. mín er því orð í tíma talað.

Jeg er þingmannafjölgun Reykjavíkur það hlyntur, að jeg greiddi atkv. með brtt. hv. 1. þm. Reykv. (Sv. B.), um að þeir skyldu vera 6, og eins varatill. háttv. sama þm., að þeir væru 5. Einnig greiddi jeg till. hv. þm. Dala. (B. J.) atkv., sem fór fram á það, að breyting væri gerð á kjördæmum víðar, og álít hana að öllu leyti sanngjarnasta. Jeg álít, að hefði þingið samþykt hana, þá hefði það ekki frestað því, sem fram hlýtur að koma, og gert það í dag, sem gert verður á morgun.

Mjer skilst, að margir þm. vilji spara fje landsins, en þeir hefðu átt að skilja það, að með því að samþykkja þessa till. sparaðist landinu allmikið fje, og þá hefðu þeir gert það, sem vel mátti við una um nokkuð langa framtíð. Jeg skal ekki fjölyrða um þetta, því málið er skýrt og ljóst þeim, sem á annað borð vilja skilja það; þó að mín till. nái ekki fram að ganga, þá greiði jeg atkv. með frv. eins og það kom frá Ed.

Deilt hefir verið um það, hvort 26. gr. stjórnarskrárinnar væri brotin með því að setja 15 í Ed., og vil jeg engan dóm leggja á það. En eftir till. minni, að 30 sitji í Nd. og 14 í Ed., verður siglt fyrir það sker. En ef 15 eiga að sitja í Ed., þá leyfi jeg mjer að koma með brtt. við brtt. mína, og skal svo ekki orðlengja þetta frekar.

Jeg vil að eins endurtaka það, að þetta er sanngirniskrafa af minni hendi, og henni verður haldið til streitu, uns hún nær fram að ganga.