28.02.1920
Efri deild: 18. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 166 í B-deild Alþingistíðinda. (221)

8. mál, þingmannakosning í Reykjavík

Guðjón Guðlaugsson:

Það stendur líkt á fyrir mjer og hv. þm. Snæf. (H. St.). Enda þótt jeg greiddi ekki atkv. í málinu áður, þá var jeg heldur með en móti. Jeg get ekki neitað því, að ástæður hv. þm. Snæf. (H. St.) eru á rökum bygðar. En það er hætta á, að það að samþykkja till. geti orðið henni til falls. Einnig finst mjer óþarfi að gera þetta á síðustu stundu að svo miklu kappsmáli gagnvart hv. Nd.

Annars skal það tekið fram, að jeg tel Reykjavík hafa fullan rjett til 3 þingmanna í viðbót og Hafnarfjörð einnig rjett til 1 þm„ og er jeg því með till. hv. 2. þm. G.-K. (B. K.) á þgskj. 188.

En það er ekki hægt að mótmæla því, eins og nú er komið málum, að varhugavert er að samþykkja till. Jeg get ekki álitið það rjett, eins og hv. 2. þm. G.-K. (B. K.) sagði, að hann ætlaði með þessu að sjá sanngirni deildarinnar. Mjer finst það ekki sanngirni að samþykkja slíkt ákvæði á síðasta fundi, að eins með einni umr. hjer og annari í Sþ.

Hvaða ástæða er fyrir því, að þessi brtt. hefir ekki komið fram fyr, og fyrir því, að hún þyrfti að geymast til síðustu stundar, þegar Hafnarfjörður hafði þó gert rjettmæta kröfu til að fá sjerstakan þm.? Mjer finst það ástæðulaust að vera að koma með slíka till. nú, þegar till. liggur fyrir Sþ. um áskorun til stjórnarinnar að endurskoða alla kjördæmaskipun landsins fyrir næsta þing. Í sambandi við þetta má segja það sama um Reykjavík.

Það er mjög varhugavert, að aukaþing sje að rugla kjördæmaskipuninni með því að smeygja inn einum og einum þingmanni. En þegar öll kjördæmaskipunin er tekin í einu lagi, þá er ekki víst, að fjölga þurfi þingmönnum. Jeg get vel hugsað mjer, að nóg sje víða að færa til mörkin, t. d. að við það, að Hafnarfjörður fær 1 þm., þurfi ekki nema 1. þm. fyrir Gullbringu- og Kjósarsýslu, eða t. d. að Kjósarsýsla verði lögð við Borgarfjarðarsýslu.

Þetta er ástæðan fyrir því, að jeg get ekki einu sinni verið með brtt. á þgskj. 185, og því síður með brtt. á þgskj. 188.