19.02.1920
Neðri deild: 7. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 179 í B-deild Alþingistíðinda. (260)

10. mál, laun hreppstjóra og aukatekjur

Frsm. (Magnús Pjetursson):

Jeg bjóst síst við því að mönnum þætti tillögurnar um dýrtíðaruppbót hreppstjóra ganga of langt. Jeg get ekki sjeð að það komi málinu við, þótt öðrum starfsmönnum landsins sje illa launað. Finst mjer mjög eðlilegt að bæta launakjör hreppstjóranna frá því sem nú er, og þarf það alls ekki að standa í sambandi við aðra launahækkun alment.

Mjer finst ofurskiljanlegt, að stjórnin skyldi nú koma fram með þetta frv., og því síst ástæða til að ávíta hana fyrir það. Raunar er mjer ekki kunnugt um það, hversu umfangsmikil eða erfið störf hreppstjóra eru, en það hygg jeg sanni næst, að þeir muni fullkomlega eiga þau laun skilið, sem hjer er farið fram á.

Mig furðar því á, að hv. þm. Barð. (H. K.) skuli vera að amast við þessu og einkum að hann skuli slá um sig með því að slá á þá strengi, er hann sló á í ræðu sinni, og venjulega eru notaðir af því þeir hljóma ljúflega í eyrum kjósenda. Vona jeg, að úr því að enginn annar af hreppstjórum þeim, sem sæti eiga í hv. deild, hafa hreyft mótmælum, þá standi hann einn uppi með þetta.