19.02.1920
Neðri deild: 7. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 181 í B-deild Alþingistíðinda. (263)

10. mál, laun hreppstjóra og aukatekjur

Þórarinn Jónsson:

Með því að háttv. frsm. (M. P.) beindi til hreppstjóranna, að láta í ljós álit sitt, vil jeg fara nokkrum orðum um þetta frv. Og þá vegna þess fyrst og fremst, að jeg hefði talið rjettast að stjórnin hefði tekið til athugunar sjálf launakjör hreppstjóranna, en eins og kunnugt er, er hjer að eins um dýrtíðaruppbót að ræða. Starf hreppstjóranna er geysiumfangsmikið, og því fyllilega rjettmætt að hækka sjálf laun þeirra án tillits til dýrtíðaruppbótar. Jeg gat þess á þinginu í fyrra, og einnig mintist jeg þar á sáttanefndirnar og ýmsa aðra, er hafa verri þóknun en engin væri. Álit mitt er því á þá leið, að jeg er á móti þessu frv. sökum þess að jeg álít að stjórnin hafi ekki farið rjetta leið, en ekki af því, að jeg hafi ekki talið rjettmætt að hækka launin.