19.02.1920
Neðri deild: 7. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 182 í B-deild Alþingistíðinda. (265)

10. mál, laun hreppstjóra og aukatekjur

Björn Hallsson:

Jeg skal ekki tefja tímann með málalengingum. En þar sem jeg er einn af þeim sem frv. þetta nær til vildi jeg láta skoðun mína í ljós með nokkrum orðum. Það þykir altaf leitt að þurfa að greiða atkv. um eigin hagsmuni en í þessu tilfelli er það ekki vandi fyrir mig, því að jeg tel ekki rjett að samþ. þetta frv. Ástæðurnar fyrir þessari skoðun minni eru fyrst og fremst þær, að mjer virðist rangt að taka hreppstjóra út úr, en láta ýmsa aðra alþýðustarfsmenn sitja við sömu launakjör og áður, svo sem oddvita, sýslunefndarmenn, sáttanefndir, hreppsnefndir o. fl. Hreppsnefndir eru launalausar, nema störf oddvita, og hafa þær þó mikið af trúnaðarstörfum fyrir hreppana á hendi. Að vísu má segja það, að þessir starfsmenn taki ekki laun, ef þau eru nokkur, beint úr landssjóði, og því sje þetta ekki sambærilegt. En mjer virðist það enga breytingu gera, því að launakjörin eru þau sömu fyrir því.

Jeg ljeti mig litlu skifta þetta frv., ef mjer fyndist það ekki brjóta í bág við það „princip“, sem mjer virðist að ætti að stjórna gerðum þingsins í þessu efni. Okkur hreppstjórunum er sama, að jeg ætla, hvort við fáum 10 eða 50 kr. meira eða minna fyrir starf okkar, og mjer finst við síst ver launaðir en aðrir menn úr alþýðuflokki, þótt með því sje að vísu ekki mikið sagt, þar sem störf alþýðumanna eru yfirleitt illa launuð.