10.02.1920
Sameinað þing: 1. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 30 í B-deild Alþingistíðinda. (32)

Rannsókn kjörbréfa

Frsm. 2. kjörbrjefadeildar (Gísli Sveinsson):

Það er ljett verk að hafa framsögu þessarar kjördeildar, sem hefir athugað kjörbrjef 1. deildar og ekki haft neitt verulegt við þau að athuga.

Þess skal að eins getið um kosningu, hv. þm. N.-Þ. (B. Sv.), að þar vantar skilríki þau, sem lög ákveða, að eigi að ligga fyrir. Hjer eru tvö símskeyti. Annað þeirra er kjörbrjef, en hitt er um framboð í kjördæminu, dagsett 21. nóv. síðastliðið ár, og hljóðar þannig:

„Enginn maður boðið sig fram til þingmensku í Norður-Þingeyjarsýslu. Vantar eyðublöð undir kjörbrjef“.

Ef símskeyti þetta ber að skilja bókstaflega, þá sýnir það, að enginn frambjóðandi hefir gefið kost á sjer til þingsetu fyrir þetta kjördæmi fyr en framboðsfresturinn var út runninn. Eftir því ætti kjördæmið að vera þingmannslaust að svo stöddu.

En hjer liggur fyrir annað símskeyti, sem yfirkjörstjórnin hefir sent seinna háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) og á að gilda sem kjörbrjef. Símskeyti þetta hljóðar svo:

„Yfirkjörstjórn Norður-Þingeyjarsýslukjördæmis kunngjörir, að Benedikt Sveinsson, bankastjóri í Reykjavík, hefir einn boðið sig fram til þingmensku fyrir kjördæmið, og er hann því alþingismaður Norður-Þingeyjarsýslukjördæmis lögmæltan tíma“.

Skeyti þetta er sent 23. desember síðastliðið ár. Ef á að skilja þetta alt eins og það er orðað, hefir enginn boðið sig fram í kjördæmi þessu á rjettum tíma, en yfirkjörstjórn úrskurðað í desember, eða um tveim mánuðum eftir að framboðsfrestur var útrunninn, hv. þm. (B. Sv.) rjettkjörinn.

Kjördeildin hefir ekki viljað ganga í þessar sakir. Það er vitanlega skyssa hjá yfirkjörstjórninni að lýsa yfir því, að enginn hafi boðið sig fram, en gefa síðan háttv. þm. (B. Sv.) kjörbrjef. Hjer hlýtur að vera um einhvern misskilning að ræða. Ber víst að skilja þetta svo, að enginn annar en háttv. þm. (B. Sv.) hafi boðið sig fram, og hann því verið sjálfkjörinn.

Nefndin vill, að svo vöxnu máli, leggja það til, að kosningin verði tekin gild með þeim fyrirvara, að þessi misgáningur verði leiðrjettur svo fljótt, sem unt er.

Nefndin hefir nær því ekkert við önnur kjörbrjef að athuga. Kjörbrjefi 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) fylgir að vísu ekki útdráttur úr kjörbókinni. En nefndin telur þetta þó ekki svo mikinn galla, að vert sje að gera veður út af honum. Það er því tillaga hennar, að kosningarnar verði allar teknar gildar, með þeim formála, sem hafður var um kosningu hv. þm. N.-Þ. (B. Sv.).