10.02.1920
Sameinað þing: 1. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 31 í B-deild Alþingistíðinda. (33)

Rannsókn kjörbréfa

Benedkt Sveinsson:

Jeg hafði ekki búist við, að misklíð yrði út af kosningu minni. Jeg hafði að vísu nýlega heyrt því fleygt, að framboð mitt orkaði tvímælis. En jeg hefi skilríki fyrir, að það var sent nógu snemma. Jeg sendi það fáum dögum eftir þinglausnir til yfirkjörstjórnar Norður-Þingeyjarsýslu, og jafnframt sendi jeg einun kjósenda minna áskorun um að afla mjer meðmælenda og senda meðmælendalistann til kjörstjórnar. Síðan fekk jeg þau orð frá honum í símskeyti, að þetta væri gert.

Jeg hafði því ekki ástæðu til að halda annað en alt væri með feldu, enda voru öll þau skeyti, er jeg fekk að norðan, því til staðfestingar, að svo væri. Mjer var forvitni á að vita hvort fleiri væru í kjöri, og símaði þess vegna til kjörstjórnar, þegar framboðsfresturinn var útrunninn. Fekk jeg það svar nokkrum dögum síðar, að aðrir frambjóðendur væru ekki. — Þetta get jeg sannað með skeyti, sem er geymt heima hjá mjer. — Loks fekk jeg brjef, dagsett 15. nóvember, frá einum af yfirkjörstjórnarmönnum, um að ekki væri enn búið að útbúa kjörbrjefið, en það mundi verða sent í tæka tíð. Kjörbrjefið hefir þó aldrei verið sent öðruvísi en í símskeyti því, sem jeg hefi afhent þinginu, og sýnist mjer það svo tvímælalaust, sem orðið getur.

Símskeyti það, sem yfirkjörstjórnin hafði sent stjórnarráðinu, með þeim ummælum, að „enginn frambjóðandi væri í Norður-Þingeyjarsýslu, og óskaði sjer því sent eyðublað undir kjörbrjef“, verður því óhjákvæmilega að skiljast svo, að enginn annar frambjóðandi væri þar í kjöri en jeg — enda var ástæðulaust að óska eftir eyðublaði undir kjörbrjef, ef alls enginn hefði verið í kjöri. Jeg hygg það því alveg rjett, sem mjer fanst fólgið í orðum háttv. frsm., að honum þætti ágallarnir næsta lítilfjörlegir.