17.02.1920
Neðri deild: 5. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 221 í B-deild Alþingistíðinda. (340)

14. mál, stimpilgjald

Fjármálaráðherra (S. E.):

Jeg tók það greinilega fram á síðasta þingi, að ekkert væri að athuga við þá niðurstöðu af fjárhagnum, sem þá var sýnileg eftir stríðsárin. En hinu kveið jeg, bæði því, að niðurstaðan af þessu ári mundi verða önnur en nú er orðin, og þó einkum því, að farið yrði inn á þá braut, að greiða árlega tekjuhalla á fjárlögum með lánum. En öll mín viðleitni hefir farið í þá átt, að berjast gegn því, að slík búskaparaðferð yrði innleidd.

Að því er sjálft frv. snertir, þá hafa aðalmótbárurnar, sem enn eru fram komnar gegn því, verið meira formlegs eðlis eða bygðar á því, að frumvarpið hefði átt að koma fram undir öðru nafni.

Nú er það vitanlegt, að frá landssjóðs sjónarmiði skiftir litlu, hvort gjaldið er kallað stimpilgjald eða aðflutningsgjald. Aðalatriðið er, að skattar þeir, sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu, komi í landssjóðinn.

Hjá erlendum þjóðum, t. d. Dönum, tíðkast stimpilskattur á ýmsum gullvörum, gimsteinum, tóbaki o. s. frv., og þurfum vjer þess vegna ekki að óttast, að hjer sje verið að fitja upp á því, sem aðrar þjóðir hafa ekki reynt áður.

Háttv. 1. þm. Reykv. (Sv. B.) sagði rjettilega, að hjer væri um verðskatt að ræða. Þetta hefir stjórnin viðurkent, enda tekur fram í ástæðum sínum fyrir frumvarpinu, að ef það verði að lögum, þá fáist reynsla fyrir því, hvort erfiðleikar verði á innheimtu þessa skatts, enda geti það orðið til leiðbeiningar við skattamálaundirbúninginn, sem nú stendur fyrir dyrum.

Háttv. þm. Stranda. (M. P.) kvað hjer verið að blanda saman verðtolli og vörutolli. Í því frv., sem hjer er um að ræða, er að eins verðtollur, en framtíðin sker úr því, hvor stefnan verður ofan á.

Háttv. 1. þm. Reykv. (Sv. B.) (Sv. B.: Eini þingmaðurinn) mintist á kolatoll frá síðasta þingi. Jeg býst við, að háttv. deild sje kunnugt um, að sá tollur var lagður á til þess að vinna upp halla, sem varð á kolum landsverslunarinnar, vegna verðfalls, er stríðið hætti. Þau kol voru keypt á tímum, er engir aðrir treystust til að versla með þá vöru, og því eðlilegt, að hallinn væri lagður á kolaneytendurna, enda var nálega alt Alþingi á því, að rjett væri að fara þá leið í málinu. Kolatollurinn var settur á til þess, að sem fyrst væri hægt að hætta við einkasöluna á kolum, sem margir voru óánægðir með.

Stimpilgjaldið mun ekki verða þess valdandi, að mikil framfærsla þurfi að koma á vöruna, þegar þess er gætt, að stimpilgjaldið er lagt á innkaupsverð.

Ef innkaupsverðið á tonninu er áætlað 100 kr., þá næmi gjaldið 1 kr., en útsöluverðið mun nú bráðlega verða 250 kr. á smálest.

Hvað viðvíkur því, að undanskilja sumar vörur gjaldi þessu, tekur fjárhagsnefnd það að sjálfsögðu til athugunar, en þá minka tekjurnar af frumvarpinu um leið, en ekki mun af þeim veita.

Frumvarp þetta er að eins bráðabirgðaráðstöfun til þess að útvega nauðsynlegar tekjur, en ef háttv. deild sæi aðra leið betri, þá mundi stjórnin að sjálfsögðu fallast á hana, en jeg leyfi mjer annars að efast um, að á þá leið verði bent.

Háttv. þm. Stranda. (M. P.) spurði, hvers vegna ríkislánið hefði ekki verið boðið út fyr en nú. Er því fljótt til að svara, að jeg sá mjer ekki fært að bjóða lánið út meðan kosningarnar stæðu yfir, því þá var það hjá mörgum aðalkosningabeitan að ráðast á fjárhag landsins og gera lítið úr honum. Var slíkt lítið byrvænlegt fyrir innanlandslán, enda rjeðu og báðir bankarnir frá því, að bjóða lánið þá út. Hygg jeg og, að þó að lánið hefði verið boðið þá út, þá hefðu kjörin ekki orðið betri en nú, því þau mega teljast ágæt, á þeim tímum, sem nú standa yfir.

Að lokum vil jeg endurtaka það, að stjórnin tekur því með þökkum, ef þingið gæti fundið betri leið, og mundi jeg styðja háttv. 1. þm. Reykv. (Sv. B.), ef hann kæmi fram með slíkt frumvarp.